10.7.2025 9:59

Leiðarlok á alþingi?

Forsætisráðherra og stjórnarflokkarnir geta staðið í vegi fyrir samkomulagi á alþingi um hækkun veiðigjaldsins – en hvers vegna? Pólitísk skemmdarfýsn? Óvild í garð einstakra útgerðarfyrirtækja?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við fréttastofu ríkisútvarpsins (RÚV) að kvöldi miðvikudagsins 9. júní að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefði þá fyrr um daginn eða kvöldið slitið samningaviðræðum formanna stjórnmálaflokkanna um þinglok.

„Aðilar voru bara einfaldlega ekki tilbúnir að teygja sig nógu langt sem er mjög miður, ég held að það hefði verið mjög auðvelt að mætast á miðri leið,“ sagði Sigurður. Hafa framsóknarmenn lagt fram málamiðlunartillögu um hækkun veiðigjalds í áföngum í 37,5% árið 2029.

Tillagan minnir á þá staðreynd, sem alls ekki er skýr í huga almennings, að enginn flokkur á alþingi er andvígur því að veiðigjaldið hækki. Deilan stendur um leiðina að markmiðinu.

IMG_2373

Sumarblíða og friðsæld.

Starfið í atvinnuveganefnd þingsins og umræðurnar á þingi hafa leitt í ljós að frumvarp atvinnuvegaráðherra Viðreisnar er meingallað. Varnaðarorðin vega ekki þyngst frá stóru útgerðarfyrirtækjunum heldur frá sjávarútvegsbyggðunum sem finna strax fyrir óvissu og óttast samdrátt.

Ég vitna í það sem Una María Óskarsdóttir, uppeldis-, menntunar- og lýðheilsufræðingur, segir í Morgunblaðinu í dag:

„Í stuttu máli telur minnihlutinn [á Alþingi] fjölmörg mál ríkisstjórnarflokkanna hroðvirknislega unnin, eins og komið hefur á daginn. Of mikil hækkun veiðigjalda, og það í einum rykk, geti haft slæmar afleiðingar fyrir fólk og fyrirtæki vítt og breitt um landið og óráðlegt geti verið að fylgja ekki niðurstöðum rannsókna vísindamanna um fjölda fiskanna í sjónum.“

Skoðanakannanir sem taldar eru leiða í ljós andstöðu við hækkun veiðigjalda sýna ekki annað en að vitlaust sé spurt. Meira að segja talsmenn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi andmæla ekki hækkun þessara gjalda.

Málið snýst ekki um markmiðið heldur leiðir að því, að ekki sé staðið þannig að verki að meira sé eyðilagt en felst í ávinningnum sem að er stefnt.

Í baklandi stjórnarflokkanna er engin samstaða um þá leið sem Viðreisn valdi í þessu máli og kallaði í upphafi „leiðréttingu“ til að villa um fyrir eigin baklandi og öðrum. Þetta er engin uppstokkun á kvótakerfinu heldur hroðvirknisleg aðferð til að fara dýpra ofan í vasa fjögurra eða fimm fjölskyldna eins og forsætisráðherrann orðaði svo smekklega í Kastljósi á dögunum.

Aðförin að þessum fjölskyldum undir forystu Kristrúnar Frostadóttur er svo dýrkeypt fyrir aðra að vekur óhug og því meiri sem áhrif umræðna um málið hefur. Hér eru tvö dæmi úr Morgunblaðinu í dag:

Gunnar Óli Sölvason, framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins Micro ehf., segir umræðuna um hækkun veiðigjalda hafa haft áhrif á innlend verkefni fyrirtækisins. Micro sinnir fyrst og fremst þróun og tæknilausnum fyrir útgerðarfyrirtæki og laxeldi.

Guðmundur Hannesson, framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts ehf., tekur í sama streng og segir áhrifin þegar orðin veruleg fyrir sitt fyrirtæki.

Forsætisráðherra og stjórnarflokkarnir geta staðið í vegi fyrir samkomulagi á alþingi um hækkun veiðigjaldsins – en hvers vegna? Pólitísk skemmdarfýsn? Óvild í garð einstakra útgerðarfyrirtækja?