19.4.2018 10:30

Leið til að spara þjáningar, fé og tíma

 Talsmenn ríkisreksturs skaða aðeins eigin málstað með því að hafna því sem hlýtur að falla undir heilbrigða skynsemi.

Gleðilegt sumar!

Hér var á dögunum vakið máls á því sem nefnt var sóun án vitglóru og var þar vísað til þess að opinberar reglur banna að nota skattfé til að greiða eina milljón króna vegna kostnaðar við liðskiptaaðgerð í Klíníkinni í Reykjavík en í reglunum er sjúkratryggingum heimilað að greiða þrjár milljónir króna fyrir slíka aðgerð í Svíþjóð. Oft gerir sami íslenski læknirinn aðgerðina í Svíþjóð og mundi gera hana í Klíkinni.

Rætt er um þetta mál í leiðara Morgunblaðsins í dag (19. apríl). Í lok hans segir:

„Heilbrigðiskerfið er að sligast undan álagi. Fyrir vikið þarf fólk iðulega að bíða eftir því að fá bót meina sinna langt umfram það sem boðlegt má teljast, með tilheyrandi óþægindum og kostnaði. Úrræðum til að stytta biðlistana og draga um leið úr álaginu á heilbrigðiskerfið ætti að taka fagnandi, en svo er ekki. Þrátt fyrir að þráfaldlega hafi verið bent á þetta misræmi er staðan óbreytt, þótt það sé dýrara að senda sjúklinga til útlanda í aðgerð. Verst kemur þetta við þá sem eru það þungt haldnir að þeir komast ekki til útlanda og hafa ekki efni á að borga aðgerðina á Klíníkinni úr eigin vasa.

Erfitt er að sjá að hér sé um að ræða grundvallarafstöðu gegn einkaframtaki í heilbrigðisþjónustu því að aðgerðirnar erlendis eru gerðar á sjálfstætt starfandi læknastofum. Þá er aðeins um óbeit á íslensku einkaframtaki að ræða.

Ákvörðunin um að leyfa aðeins greiðsluþátttöku í liðskiptaaðgerðum erlendis, en ekki á Íslandi, lýsir einstakri þröngsýni. Hún ber vitni óvirðingu fyrir skattfé almennings og skeytingarleysi um þjáningar sjúklinga.“

Þetta eru þung orð en réttmæt. Þeir sem standa vörð um óbreytt kerfi hafa ekki kynnt nein málefnaleg rök á opinberum vettvangi máli sínu til stuðnings. Þess vegna er nærtækt að álykta á þann veg aðeins sé „um óbeit á íslensku einkaframtaki að ræða“ eins og að ofan segir.

Eyjafjallajökull.

Sterk rök eru fyrir því að íslenska heibrigðiskerfið sé að meginhluta ríkisrekið enda er ekki deilt um þá meginskoðun. Talsmenn ríkisreksturs skaða aðeins eigin málstað með því að hafna því sem hlýtur að falla undir heilbrigða skynsemi: að spara fólki þjáningar, fé og tíma með því að nýta alla krafta í þágu heilbrigðisþjónustunnar á hagkvæmasta hátt.

Ágreiningurinn um framkvæmd liðskiptaaðgerða er aðeins eitt dæmi um nauðsyn þess að ræða nýtingu mikilla fjármuna til heilbrigðismála og leita að bestu leiðum til að þjóna þeim best sem leita til heilbrigðiskerfisins: sjúklingunum. Kerfið er til vegna þeirra og þeir standa undir kostnaði við það. Taki kerfið að snúast um annað er hætta á ferðum.