16.6.2024 11:32

Le Pen gegn fylkingu íslamskra vinstrisinna

Marine Le Pen segir þá báða, Macron og Mélenchon, hættulega en allir verði þó að setja í forgang að berjast gegn fylkingu íslamskra vinstrisinna.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti rauf þing að kvöldi 9. júní eftir að flokkur hans fór illa út úr ESB-þingkosningunum og varð aðeins hálfdrættingur gagnvart Þjóðarhreyfingu Marine Le Pen sem hlaut um 30% atkvæða. Í vikunni sem síðan er liðin hefur franska pólitíska atburðarásin verið hröð og lítt skiljanleg fyrir aðra en þá sem hafa aðgang að því sem gerist fyrir luktum dyrum.

Franskir vinstrisinnar hafa myndað kosningabandalag en miðjuhreyfing Macrons hefur ekki náð flugi og Éric Ciotti, formaður Lýðveldissinna, gamla Gaullistaflokksins, gerði bandalag við Þjóðarhreyfinguna (RN). Það varð til þess að ráðandi öfl í Lýðveldisflokknum úthrópuðu Ciotti en hann sagðist réttkjörinn flokksformaður og samblástur innan flokksins breytti því ekki. Ciotti er frá Nice í Suður-Frakklandi þar sem RN er öflug og vill eiga stuðning flokksins til að ná kjöri sem borgarstjóri þegar fram líða stundir.

Í Le Figaro birtist sunnudaginn 16. júní drottningarviðtal við Marine Le Pen og fyrsta spurningin er hvort Þjóðarhreyfingin hafi færst til hægri með bandalaginu við Ciotti.

Screenshot-2024-06-16-at-10.09.03Marine Le Pen.

Marine Le Pen telur að frönsk stjórnmál færist ekki aftur til þess tíma þegar hægri og vinstri fylkingar börðust um völdin. Flokkur sinn, RN, sé föðurlandsflokkur sem vilji hvorki vera dreginn í hægri eða vinstri dilk. Flokkurinn berjist því áfram á milli þjóðernissinna og glóbalista. Vinstrisinnar og Macronistar berjist fyrir stefnumálum sem hún kallar síðþjóðleg (fr. post- nationale), sumir vegna þess að þeir vilji engin landamæri, að hver sem er í heiminum öllum eigi að geta komið til Frakklands og notið þess sem kerfið þar hafi að bjóða og aðrir sem vilji gefa yfirþjóðlegum stofnunum umboð til að sjúga til sín franskt fullveldi.

Þá er spurt hvor sé helsti andstæðingur hennar Emmanuel Macron eða Jean-Luc Mélenchon, leiðtogi vinstrisinna.

Hún segist ekki setja þessar tvær fylkingar á sömu hillu. Frakkar standi nú frammi fyrir verri fylkingu vinstrisinna en áður, þar sé um að ræða bloc islamo-gauchiste – fylkingu íslamskra vinstrisinna – sem boði næstum opinberlega að svipta Frakka öllu frelsi þeirra. Í fyrsta lagi frelsinu til að vera franskur, síðan eignarréttinum, frelsi til að mótmæla og tjáningarfrelsinu. Þeir vilji þrengja að valdi lögreglunnar og vegi að henni siðferðislega og þeir vilji kollvarpa stjórnskipan lýðveldisins.

Marine Le Pen segir að Macron valdi skaða á lymskulegri hátt en skilji eftir sig land í rúst þar sem öll almannaþjónusta hafi verið eyðilögð. Streymi innflytjenda sé stjórnlaust og almennir borgarar búi við öryggisleysi.

Hún segir þá báða, Macron og Mélenchon, hættulega en allir verði þó að setja í forgang að berjast gegn fylkingu íslamskra vinstrisinna.

Hér verður ekki vitnað frekar í þetta langa viðtal við leiðtoga flokksins sem talinn er sigurstranglegastur í frönsku þingkosningunum og lesendum látið eftir að máta orð Marine Le Pen inn í íslenskar stjórnmálaumræður.