9.2.2022 9:20

Launhelgar Dags B. og olíurisanna

Stjórnarhættirnir sem birtast í þessum lóða- og fjármálasviptingum borgarstjóra eru til marks um ógagnsæja sérhagsmunagæslu eins og hún verður mest.

Undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hefur þróast úthlutunarkerfi stórlóða sem hann hefur í hendi sér. Hann rekur dæmi um slíkar úthlutanir í bók sinni Nýja Reykjavík. Nú blasir við að borgarstjóri nýtir sér þetta vald sitt í samskiptum við olíufélögin sem ráða yfir stórum lóðum víða í borginni en verða óhjákvæmilega að draga saman seglin vegna aukinnar rafvæðingar bíla.

Stefán Einar Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, birtir úttekt um þessi samskipti borgarstjóra og olíufélaganna í ViðskiptaMogganum í dag 9. febrúar. Hann segir að samið hafi verið um margar lóðir olíufélaganna en „borgarbúar verði í myrkrinu“ fram yfir borgarstjórnarkosningarnar í vor „um hversu mikið verður byggt á lóðunum“.

Í Morgunblaðinu hefur áður verið vakin athygli á samningi borgarstjóra við N1 vegna bensínstöðvar á Ægisíðu 102. Er talið að verðmæti samninganna geti numið milljörðum þótt Dagur B. hafni því og vari lesendur Morgunblaðsins við að trúa blaðinu enda séu kosningar í nánd ­– leikbragð viðkvæms stjórnmálamanns í anda Donalds Trumps sem hrópar Fake news! í hvert sinn sem hann telur að sér vegið.

Stefán Einar segir að frá lokum maímánaðar og fram í miðjan júní í fyrra hafi fulltrúar Reykjavíkurborgar ritað undir samninga við gömlu olíurisana. Mat sérfræðinga sé að eftirspurnarhlið fasteignamarkaðarins verði á komandi árum mun sterkari en framboðshliðin og því sitji fyrirtækin í krafti samninganna á verðmætum sem að öllu óbreyttu aukist og aukist á komandi misserum.

Samið hafi verið við Olíuverslun Íslands og Haga, Festi, N1 og Krónuna og Skeljung .

500473Þessi bensínstöð var opnuð 1949 (mynd: mbls.)

Í úttekt Stefáns Einars segir að meira sé undir í samningum borgarstjóra við olíufélögin en ráðstöfun bensínstöðvalóðunum. Olís fær til dæmis vilyrði fyrir úthlutun lóðar á Esjumelum, þar sem ætlunin er að starfrækja „fjölorkustöð“ – bensínstöð sem tryggir aðgang að fleiri orkugjöfum eftir atvikum. Í samningnum segir: „Dælur fyrir jarðefnaeldsneyti á lóð á Esjumelum og Egilsgötu 5 verða ekki opnar samtímis.“

Fámennur hópur innan borgarkerfisins veit um efni þessara samninga. Hvílir svo mikil leynd yfir þeim að borgarfulltrúar hafa aðeins fengið að skoða þá á spjaldtölvu í lokuðu gagnaherbergi í Ráðhúsinu.

Undanfarin ár hefur borgarstjóri sótt fast að þeir sem fá heimild til að byggja greiði svonefnt innviðagjald sem lagt er á án lagaheimildar en með samningi við viðkomandi. Hefur borgin haft betur í málaferlum vegna þessa gjalds í héraðsdómi og landsrétti en nú hefur hæstiréttur ákveðið að eiga síðasta orðið um lögmæti gjaldtökunnar.

Það staðfestir að innheimta innviðagjaldsins ræðst af geðþótta borgarstjóra að

í samningunum við olíufélögin er nær undantekningarlaust fallið frá gjaldtökunni. Verði Festi að ósk sinni um hámarksbyggingarmagn á Ægisíðu 102, verður borgin af 195 milljóna króna innviðagjöldum vegna lóðarinnar.

Stjórnarhættirnir sem birtast í þessum lóða- og fjármálasviptingum borgarstjóra eru til marks um ógagnsæja sérhagsmunagæslu eins og hún verður mest.