13.10.2017 10:01

Látum norðurslóðir og Ísland blómstra

Fimmta Hringborð norðursins (Arctic Circle) hefst í dag (13. október) í Hörpu. Dagskráin er 68 bls. að lengd sem segir sína sögu um umfangið en um 2.000 manns sitja ráðstefnuna hvaðanæva að úr heiminum.

Fimmta Hringborð norðursins (Arctic Circle) hefst í dag (13. október) í Hörpu. Dagskráin er 68 bls. að lengd sem segir sína sögu um umfangið en um 2.000 manns sitja ráðstefnuna hvaðanæva að úr heiminum. Fjölbreytileiki þátttakendanna endurspeglar áhugann á þessu framtaki sem rekja má til samtarfs Ólafs Ragnars Grímssonar við áhugamenn um norðurskautsmál í Bandaríkjunum, einkum Alaska.

Frammámenn í Alaska sýna þróun mála á norðurslóðum mikinn áhuga vegna nýrra tækifæra vegna loftslagsbreytinga og gífurlegra fjárfestinga til að nýta auðlindir á nýjum svæðum. Ólafur Ragnar hefur orðað það svo að nýtt úthaf opnist hér fyrir norðan Ísland. Áhuga Alaskamanna má meðal annars ráða af því að þeir hafa eignast 50% í fjarskiptafyrirtækinu Nova og 75% í Kea-hótelum.

Í Anchorage í Alaska er fimmti stærsti flutningaflugvöllur í heimi. Þeir sem flytja vörur frá Asíu til Norður-Ameríku og Evrópu velja þann kost að hlaða vélarnar frekar með varningi en eldsneyti og kjósa hagkvæmasta kostinn sem skipti- og dreifingarflugvöll og hann er í boði í Anchorage. Íbúar Alaska eru um helmingi fleiri en við Íslendingar og forráðamenn í ríkinu sjá sér mikinn hag af að treysta stöðu þess innan Bandaríkjanna með því að draga athygli að legu ríkisins og tækifærunum sem hún veitir. Þeir hafa átt mikinn þátt í að móta stefnu Bandaríkjanna í norðurskautsmálum.

Meðal þess sem skapar okkur Íslendingum sérstöðu í hópi norðurskautsþjóðanna er landbúnaður og hreinleiki hans. Sé langur listi um efni sem eru til umræðu við hringborð norðursins skoðaður sést að þessi sérstaða og alúð við hana fellur vel að því sem þeim er efst í huga sem ræða norðurslóðabreytingar.

Það er einkennilegt að íslenskir kaupsýslu- og stjórnmálamenn telji sér sæma að hallmæla íslenskum landbúnaði og líta á framlag til að styrkja stöðu hans í hvívetna sem einhverja ölmusu. Hafi þetta viðhorf nokkru sinni átt rétt á sér – en svo er einfaldlega ekki – er það algjörlega fráleitt nú á tímum. Þess vegna ber að fagna því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Haraldur Benediktsson og Óli Björn Kárason, skuli hafa farið um landið og efnt til funda undir slagorðinu: Látum allt Ísland blómstra.

Að baki hugmyndunum og tillögunum á fundunum liggur sú sannfæring að okkur Íslendingum vegni best þegar byggðirnar blómstri, til sjávar og sveita, í dreifbýli sem þéttbýli. Markmiðið er að skapa tækifæri um allt land þannig að ungt fólk hafi raunverulegt valfrelsi um búsetu svo Ísland allt blómstri.

Segja má að þetta sé einnig kjarni þess sem kynnt á ráðstefnunni miklu um norðurslóðir sem hefst í Reykjavík í dag, það er að mannlíf, atvinnulíf, dýralíf og fjölbreytni á öllum sviðum fái að blómstra í okkar hluta heims og þjóðunum takist að nýta sem best ný tækifæri.