31.10.2022 9:40

Lars Løkke með lykilinn

Løkke var ýtt til hliðar í Venstre af því að hann boðaði samstarf yfir miðjuna á milli blokka. Nú er hann í lykilhlutverki.

Gengið verður til kosninga í Danmörku á morgun, 1. nóvember, kosningabaráttan hefur verið stutt og snörp eins og venjulegt er þar í landi.

Í Danmörku skiptast 14 flokkar í tvær blokkir, rauða og bláa. Nú er mjög mjótt á munum milli þeirra. Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður mið-hægri flokksins Venstre, hefur skipað sér á miðjuna með nýjan flokk, Moderaterna – hófsamir.

Https-legacy-altinge-dv44xai1iv7xxjbtyxfsLars Løkke Rasmussen biður um orðið í kappræðum flokksformanna.

Til að ná hreinum meirihluta þarf önnur hvor blokkin að fá 90 þingmenn kjörna. Könnun Politiken frá sunnudegi 30. október sýnir Jafnaðarmannaflokkinn og samstarfsflokka hans með 84 þingmenn en borgaralegu bláu blokkina með 74 þingmenn. Fái Løkke 17 þingmenn, eins og könnunin sýnir, ráða atkvæði þingmanna hans úrslitum um hvor blokkin myndar meirihluta á þingi. Løkke var ýtt til hliðar í Venstre af því að hann boðaði samstarf yfir miðjuna á milli blokka. Ef til vill verður hann í þeirri stöðu að kvöldi þriðjudags 1. nóvember að láta þann draum rætast.

Á síðustu dögum kosningabaráttunnar kastaði Løkke fram róttækri tillögu um uppstokkun á opinbera lífeyriskerfinu. Vill hann minnka hlut hins opinbera þar eins og hann gerði á sínum tíma þegar hann jók hlut einkaaðila í danska heilbrigðiskerfinu.

Lokaumræður dönsku flokksleiðtoganna voru í sjónvarpi að kvöldi sunnudags 30. október. Mette Frederiksen forsætisráðherra jafnaðarmanna kom ósködduð frá þeim. Ef til vill tókst henni að snúa nógu mörgum kjósendum til fylgis við sig til að rauða blokkin fái hreinan meirihluta.

Vegna þess hve Lars Løkke Rasmussen fékk, að eigin mati, hraklega meðferð af hálfu þeirra sem ýttu honum til hliðar í Venstre er líklegra að hann halli sér að rauðu blokkinni en þeirri bláu að kosningum loknum – nema hans verði freistað með embætti forsætisráðherrans. Mette Frederiksen lætur það ekki af hendi.

Minkamálið svonefnda, útrýming minka í Danmörku vegna COVID-19, var kveikjan að þingkosningum nú. Það gufaði að verulegu leyti upp í kosningabaráttunni.

Útlendingamálin ber ekki hátt í kosningabaráttunni enda er í stórum dráttum samstaða um að sýna festu í þeim. Flokkurinn sem þrýsti á harða útlendingastefnu, Danski þjóðarflokkurinn (DF), hverfur líklega af þingi. Hann hefur þjónað hlutverki sínu.

Minna örlög hans á hræðslu sem gætir nú hjá gamalgrónum ráðamönnum í Samfylkingunni yfir því að fráhvarf frá boðun ESB-aðildar í nafni flokksins kunni að gera hann óþarfan. Eftir að Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn formaður, boðaði breyttar og minni ESB-áherslur í stefnuræðu sinni hefur nýkjörinn varaformaður, Guðmundur Árni Stefánsson, og þingflokksformaðurinn, Helga Vala Helgadóttir, lýst andstöðu við sjónarmið Kristrúnar. Þarna er málefnaágreiningur á æðstu stöðum.

Lykilstaða Lars Løkke Rasmussen minnir enn einu sinni á hve miklu skiptir að standa vel og málefnalega að valdaskiptum í stjórnmálaflokkum. Þeir sem gera það ekki gjalda þess oft illilega.