8.7.2021 9:53

Langvinn umræða um Keldur

Þegar sala á Keldnalandinu var á döfinni fyrir um tveimur áratugum varð ekkert úr framkvæmdum. Framtíð vísindastarfs á Keldum er enn til umræðu.

Í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 31. ágúst 2002 sagði:

„Þegar umræður hófust um þekkingarþorp eða vísindagarða í Vatnsmýrinni við Háskóla Íslands og Landspítala – háskólasjúkrahús, kom í ljós, að bæði innan háskólans og sjúkrahússins var áhugi á því, að starfsemi á Keldum flyttist í þetta umhverfi. Yrði það í senn til þess að efla starfsemina þar og skjóta traustari stoðum undir rannsóknastarf á Keldum. Þá hefur verið rætt, að dýrahald á vegum stöðvarinnar færist út fyrir höfuðborgarsvæðið og tengist ásamt dýrarannsóknum starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, sem starfar undir handarjaðri landbúnaðarráðuneytisins eins og yfirdýralæknir og þeir, sem starfa á hans vegum á Keldum.

Framtíð Keldnastöðvarinnar verður einnig að skoða í ljósi viðræðna, sem fram hafa farið um nokkurra missera skeið milli fjármálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar um sölu á Keldnalandi frá ríki til borgar. Ræðst verð og áhugi kaupanda að sjálfsögðu af því, hvort verið sé að selja landið í heild eða einstakar spildur úr því.“

Þegar sala á Keldnalandinu var á döfinni fyrir um tveimur áratugum varð ekkert úr framkvæmdum. Framtíð vísindastarfs á Keldum er enn til umræðu eins og sést í Morgunblaðinu í dag þar sem minnt er á að samkvæmt samningi fjármálaráðuneytisins við félagið Betri samgöngur ohf. verði Keldnalandið fært undir eignarhald félagsins. Þetta sé framlag ríkisins til samgöngusáttmálans svonefnda en Betri samgöngur ohf. ætli að selja lóðir í Keldnalandinu og nota ágóðann til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavíkurborg fer með skipulagsvald á svæðinu.

GQV16ND54Á Keldnasvæðinu eru þrjú rannsóknarhús, hesthús, fjárhús og krufningshús, gömul útihús og Keldnabærinn. (Mynd: mbl.is/Eggert.)

Í blaðinu er rætt við Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur ónæmisfræðing á Keldum, sem sakar menntamálaráðuneytið um að „bregðast“ stofnuninni með því að gulltryggja henni ekki starfsaðstöðu áfram á þessum stað. Menntamálaráðuneytið mótaði fyrir rúmum tveimur áratugum stefnu í þá veru sem ég lýsti í ofannefndri grein minni eftir að ég lét af embætti menntamálaráðherra. Átti ég sem ráðherra í nokkrum orðaskiptum við forráðamenn á Keldum um þetta mál. Ástæðan fyrir því að allt situr við hið sama er afstaða þeirra sem starfa á Keldum. Þeir vilja ekki hreyfa sig um set. Nú gefur Sigurbjörg til kynna að menntamálaráðuneytið hafi gleymt tilvist þessarar stofnunar. Það er af og frá. Sé ekki vilji til að leysa mál eru sum þeirra óleyst árum og áratugum saman, engum til góðs.

Vilji til að laga starfsemi Keldna að nýjum stað liggur fyrir hjá öllum utan Keldna. Samningur fjármálaráðuneytisins við Betri samgöngur ohf. um Keldur er reistur á margræddum hugmyndum. Fréttaefnið ætti að vera hvernig á því standi að enn sé stundað dýrahald á Keldum, af hverju ekki sé áhugi meðal vísindamanna á að velja því nýjan stað.

Að dýrarannsóknir í hjarta höfuðborgarsvæðisins séu lykillinn að góðum vísindalegum árangri er ósannfærandi. Hafi heimilisfang tilraunastöðvarinnar á Keldum ráðið úrslitum, er lítið gert úr hæfileikum þeirra sem þar hafa unnið að rannsóknum og náð frábærum árangri á mörgum sviðum.