Viðjar vanans, tækifæri breytinganna - vettvangur Morgunblaðið
Viðjar vanans, tækifæri breytinganna
Viðjar vanans eru ýmsum fjötur um fót. Oft er erfitt að leiða fólk inn á nýjar brautir eða víddir vegna þess, hve margir óttast breytingar. Fleiri virðast frekar sjá hættur í breytingum en tækifæri og almennt er líklega auðveldara að fá fólk til að samþykkja óbreytt ástand en breytingu, einkum ef það sér einhverja óvissu fylgja henni fyrir það sjálft.
Þegar rætt er um breytingar, er þeim gjarnan harðlega mótmælt með því að benda á ávinning af óbreyttu ástandi. Nærtækt dæmi úr samtímanum eru umræður um nýja starfsaðstöðu fyrir rannsóknastarfsemina, sem hefur verið stunduð í Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum síðan 1948.
Íbúðabyggð í Reykjavík hefur þrengt að stöðinni og umlykur hana nú, eins og sjá má þegar litið er á húsin í Grafarvogi og á Grafarholti. Þegar forráðamenn stöðvarinnar kynntu óskir um nýframkvæmdir við hana í þágu dýrarannsókna, var þeim bent á, að ekki yrði unnt að ráðast í þær á Keldum. Með framtíðaraðstöðu stöðvarinnar í huga væri skynsamlegt að taka ákvarðanir á þeim forsendum, að starfsemin hlyti að flytjast annað, ef skortur á húsnæði stæði í vegi fyrir þróun hennar og góðri þjónustu.
Þegar umræður hófust um þekkingarþorp eða vísindagarða í Vatnsmýrinni við Háskóla Íslands og Landspítala – háskólasjúkrahús, kom í ljós, að bæði innan háskólans og sjúkrahússins var áhugi á því, að starfsemi á Keldum flyttist í þetta umhverfi. Yrði það í senn til þess að efla starfsemina þar og skjóta traustari stoðum undir rannsóknastarf á Keldum. Þá hefur verið rætt, að dýrahald á vegum stöðvarinnar færist út fyrir höfuðborgarsvæðið og tengist ásamt dýrarannsóknum starfsemi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, sem starfar undir handarjaðri landbúnaðarráðuneytisins eins og yfirdýralæknir og þeir, sem starfa á hans vegum á Keldum.
Framtíð Keldnastöðvarinnar verður einnig að skoða í ljósi viðræðna, sem fram hafa farið um nokkurra missera skeið milli fjármálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar um sölu á Keldnalandi frá ríki til borgar. Ræðst verð og áhugi kaupanda að sjálfsögðu af því, hvort verið sé að selja landið í heild eða einstakar spildur úr því.
***
Vísindamenn eru sífellt að leita á vit framtíðar. Vissulega byggja þeir á því, sem er og var, en þá fyrst ná þeir árangri, þegar þeir komast inn á nýjar brautir. Má því ætla, að þeir, sem bera hag Keldna einkum fyrir brjósti, telji spennandi tækifæri felast í nýrri aðstöðu og nýju umhverfi. Flutningur á milli húsa eða á nýjan stað breytir að sjálfsögðu engu um inntak vísindastarfa eða hvernig vísindamenn haga störfum sínum, nema þeir ákveði sjálfir.
Fjarlægðir hafa horfið í heimi rannsókna og vísinda og þess vegna á ekki að skipta neinu, hvort menn eru í Grafavoginum, á Hvanneyri, í Vatnsmýrinni eða New York, þegar þeir stunda rannsóknir sínar. Á hinn bóginn er almennt viðurkennt, að vísindagarðar á borð við þá, sem er verið að undirbúa við Háskóla Íslands skapi almennt hið hagstæðasta starfsumhverfi fyrir vísindamenn og stuðli að nýsköpun með þvervísindalegum vinnubrögðum.
Á Keldum varð einmitt til slíkt umhverfi á sínum tíma. Ákvörðunin um að tengja ólíkar vísindagreinar á Keldum bar vott um mikla framsýni. Íslenskt háskóla- og vísindasamfélag hefur hins vegar breyst mikið síðan auk þess sem þróun byggðar og þörf fyrir ný dýrarannsóknahús á Keldum valda því, að skynsamleg rök virðast fyrir því að skoða og síðan nýta sér þau nýju tækifæri, sem gefast við núverandi aðstæður.
***
Af fréttum má ráða, að starfsmenn á Keldum séu ekki allir sáttir við hugmyndir um að flytja á nýjan stað. Er í sjálfu sér ekki nýtt, að deilt sé, þegar rætt er um að flytja opinbera starfsemi á milli húsa, bæjarhluta eða landshluta. Starfsmenn hins opinbera koma fram með öðrum hætti við vinnuveitanda sinn, þegar hann tekur ákvarðanir af þessu tagi, en þeir, sem vinna hjá einkaaðilum. Stundum er engu líkara en þeir telji sig fara með eignarhald á opinberum mannvirkjum, lóðum og lendum og ekki megi taka ákvarðanir um þær án þeirra samþykkis.
Þegar litið er til raka þeirra, sem hafa opinberlega lagst gegn því, að flutt verði frá Keldum, sést, að þeir líta fremur til fortíðar en framtíðar. Má þar nefna grein eftir Halldór Þormar, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu 24. ágúst sl. Hún byggist meira á fortíðarþrá en framtíðarsýn. Þó sér höfundur þann kost, að reisa megi háhýsi yfir menn og dýr á Keldum, þegar fram líða stundir. Segir hann það skammsýn gróðasjónarmið um lóðasölu, að flytja Keldnastarfsemina annað.
Höfuðrök prófessorsins fyrrverandi lúta þó ekki að aðstöðu eða heimilisfangi heldur að því, hvaða vísindamenn störfuðu á Keldum og hverjir leiddu starfið þar, það er Björn Sigurðsson, Páll Agnar Pálsson, Guðmundur Pétursson og Guðmundur Georgsson. Undir forystu þessara manna hafi Keldur öðlast alþjóðlega virðingu.
***
Þótt starfsemi á Keldum flytjist á nýjan stað, er ekki vegið að brautryðjandastarfi Björns Sigurðssonar. Áfram verður kenning hans í kennslubókum í sýklafræði og læknisfræði. Áfram verður fyrir hendi vitneskja um, að kenning Björns spratt af rannsóknum hans á smitandi sauðfjársjúkdómum. Áfram verður litið á kenningu Björns sem mesta framlag Íslendings í læknavísindum. Með starfi sínu og miklum árangri hefur Björn orðið mörgum íslenskum vísindamanni fyrirmynd.
Spurning er, hvort ekki eigi að tengja hina miklu rannsóknastarfsemi, sem sprottin er af starfi Björns við stofnun með nafni hans sjálfs. Hitt er að sjálfsögðu auðvelt að flytja Keldna-nafnið með tilraunastöðinni, verði ákveðið að velja henni nýjan stað.
Reynsla af starfinu á Keldum glatast ekki, þótt flutt sé á milli húsa eða borgarhverfa. Hún kennir, að mikilvægt er að sameina vísindalegar rannsóknir á sviði líf- og læknisfræði og svonefndar þjónusturannsóknir á dýrasjúkdómum. Allt annað er að glíma við viðfangsefni af þessum toga núna en árið 1948. Þrátt fyrir framsýni sá enginn þá, að átta háskólar yrðu starfandi í landinu árið 2002 og þar af einn á Hvanneyri, sem sinnti landbúnaðarvísindum sérstaklega.
Úttekt á grunnvísindastarfi hér á landi sýnir, að í alþjóðlegum samanburði eru Íslendingar í fremstu röð í heilbrigðisvísindum. Læknisfræðilegar rannsóknir íslenskra sérfræðinga vekja heimsathygli á mörgum sviðum. Allt bendir því til þess, að vísindagarðar í Vatnsmýrinni með sérstaka áherslu á líf- og læknisfræði ávinni sér með skjótum hætti alþjóðlega viðurkenningu.
Við núverandi aðstæður kann beinlínis að vera skaðlegt fyrir þróun vísindastarfsemi, að láta ákvarðanir um húsnæðis- og starfsaðstöðu, sem teknar voru fyrir meira en hálfri öld, ráða ferðinni við val á starfsumhverfi og daglegum tengslum við aðrar vísindagreinar.
***
Það er verðugt viðfangsefni að velta fyrir sér og ræða framtíðaraðstöðu fyrir hið mikilvæga vísindastarf, sem unnið er á Keldum. Óskynsamlegt er að gera það á forsendum ótta við breytingar eða vegna þarfar á að búa við öryggi í viðjum vanans.
Góðir vísindamenn náðu góðum árangri við störf sín á Keldum. Enginn getur fullyrt, að þeir hefðu ekki gert það, þótt tilraunastöðin hefði verið öðru vísi í sveit sett. Hafi heimilsfang hennar ráðið úrslitum, er lítið gert úr hæfileikum þeirra, sem að rannsóknum unnu.
Þeim, sem nú starfa á Keldum, er einnig gert rangt til, ef látið er í veðri vaka, að þeir nái ekki árangri í vísindastörfum sínum nema vegna þess að forverar þeirra, einmitt á þessum stað, unnu vísindaleg afrek. Umræður af þessum toga um vísindastarf á Keldum skila í raun engu, því að þær snúast um annað en þau viðfangsefni, sem við blasa, þegar litið er til þróunar byggðar og þarfar á Keldum fyrir aukið húsrými undir vísindastarf þar.