Landsvirkjun líður orkuskort
Við erum miklir snillingar við að hanna frumskógarkerfi til að fela markmið svo að ekki sé minnst á mótun leiða til að ná þeim. Að leysa orkukreppu með því að slökkva ljós er varla á dagskrá?
Ársfundur Landsvirkjunar var haldinn 7. mars. Afkoma ársins 2022 var betri en áður í sögu fyrirtækisins. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði var 44,9 milljarðar króna og hækkaði um ríflega 72% á milli ára í dollurum. Rekstrartekjur jukust um rúm 25% frá árinu 2021, þegar þær voru þó meiri en nokkru sinni fyrr. „Rekstrarniðurstaða ársins 2022 er því einstök í 58 ára sögu fyrirtækisins,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins.
Landsvirkjun greiðir eiganda sínum, íslenska ríkinu, 20 milljarða króna í arð. Skatttekjur af Landsvirkjun námu auk þess 30 milljörðum króna í fyrra.
Undanfarin ár hefur Landsvirkjun endursamið við flesta stærstu viðskiptavini sína. Vegna aðildar Íslands að evrópska orkumarkaðnum borga þeir nú raforkuverð sem er sambærilegt við það sem greitt er í helstu samanburðarlöndum. Þá var álverð hátt í fyrra og því var rekstrarumhverfi stórnotenda raforku almennt hagstætt á árinu. Meðalverð á orku Landsvirkjunar til stórnotenda án flutnings var tæplega 43 Bandaríkjadalir á megavattstund og hefur aldrei verið hærra.
Búrfellsvikjun, enn er á að auka afl hennar (mynd: mbl.is).
Þessar tölur um hagnað orkuframleiðenda eru ekki einstæðar fyrir Ísland. Hvarvetna hefur orkuverð hækkað og markaðir tekið á sig nýjan svip vegna stríðsins í Úkraínu. Nægir til dæmis að benda á þróunina í gas- og olíusölu Norðmanna fyrir utan rafmagnssölu þeirra með streng til nágrannalandanna. Eftir að Rússar hættu að selja Þjóðverjum gas eru Norðmenn stærstu birgjar þeirra og hlutur Bandaríkjamanna hefur stöðugt aukist. Með ævintýralegum hraða hafa Þjóðverjar lagað hafnarmannvirki að móttöku á fljótandi jarðgasi úr skipum. Nú þegar sér fyrir vetrarlok á meginlandi Evrópu blasir við að Rússum tókst ekki að beita orkuvopninu á þann hátt sem þeir ætluðu sér.
Skjót viðbrögð meginlandsþjóða Evrópu við orkukreppunni eru í hrópandi ósamræmi við hægaganginn hér á landi við töku ákvarðana um að auka orkuframleiðsluna. Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, sagði á ársfundinum að fyrirtækið ætti enga afgangsorku og virkja yrði meira til að fullnægja eftirspurn og tryggja öryggi. Greining sýndi að virkjanir sem nú væru í pípunum nægðu ekki til að sinna afltoppum kerfisins á næstu árum.
Fram til ársins 2027 ætlar Landsvirkjun að standa að virkjanaframkvæmdum í Þjórsá og að Þeistareykjum. Enginn veit hvað gerist eftir það.
Hörður Arnarson segir á ruv.is að nú skipti mestu að stjórnvöld hafi skýra sýn á orkuþörf samfélagsins til langs tíma. Alltaf megi endurskoða einstaka þætti ef forsendur breytist eða ný tækni komi til sögunnar. Nú sé hins vegar ekki fyrir hendi nein „sýn af hálfu stjórnvalda um hvað þarf af orku“.
Við erum miklir snillingar við að hanna frumskógarkerfi til að fela markmið svo að ekki sé minnst á mótun leiða til að ná þeim. Að leysa orkukreppu með því að slökkva ljós er varla á dagskrá?
Hér ættu þeir sem taka ákvarðanir um leyfi til orkuvinnslu að líta til þeirra aðferða sem beitt hefur verið undanfarið annars staðar á EES-svæðinu og hindrað hafa á ótrúlega skömmum tíma orkukreppu þar.