Landspítalinn anno 1995
Árið 1995 kom þessi vefsíða til sögunnar. Væri hún enn rekin á sama hátt og þá var mætti líkja því við að skófla væri notuð til að grafa fyrir nýjum Landspítala.
Vísinda- og tækniráð markar stefnu stjórn valda í vísinda- og tæknimálum til þriggja ára í senn. Umfjöllun ráðsins á hvoru sviði um sig er undirbúin af starfsnefndum ráðsins, vísindanefnd og tækninefnd. Ragnheiður H. Magnúsdóttir vélaverkfræðingur er núverandi formaður tækninefndar vísinda- og tækniráðs. Við hana var rætt í Morgunblaðinu mánudaginn 9. ágúst um stöðu tæknimála innan Landspítalans. Lýsingin sem þar birtist ber öll merki þess þegar risavaxin ríkisstofnun staðnar á einhverju sviði og eina sem kemst að í umræðum henni til bjargar er krafa um aukið fjármagn.
Nýr ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar í takt við flokkinn sinn í leiðara blaðsins í dag þegar hann segir:
„[S]ú 14 prósenta aukning sem þó hefur orðið á fjárframlögum til Landspítalans á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið étin upp af framlögum til nýs meðferðarkjarna, launahækkana og styttingar vinnuvikunnar. Fyrir vikið blasir við mönnunarvandi – á tímum þegar síst skyldi.“
Þarna er því haldið að lesendum að með auknu fé
mætti leysa „mönnunarvanda“ sjúkrahússins. Ritstjórinn boðar ekki neinar nýjar
lausnir. Hann veltir ekki fyrir sér að til sé önnur leið en að dæla auknu
skattfé í óbreytt kerfi og þá leysist „mönnunarvandinn“. Hann keppir í raun
eins og aðrir forystumenn Samfylkingarinnar um þessar mundir við Gunnar Smára
Egilsson, stofnanda og hugmyndafræðing Sósíalistaflokks Íslands, um hver dásami
ríkisrekstur í heilbrigðiskerfinu mest og lofi sem mestum fjármunum til að
lappa upp á kerfið eins og það er. Að hreyfa hugmyndum um breytingar er pólitísk
„ósvífni“ að mati sósíalistanna.
Grunnur lagður að meðferðakjarna Landspítalans. Hverjum dytti í hug að gera það með skóflu og hólbörum?
Í samtali Morgunblaðsins við Ragnheiði H. Magnúsdóttur má meðal annars lesa þetta:
„„Það eru ótal hlutir að breytast í okkar heimi en við erum enn þá eins og árið sé 1995 á þessum spítala,“ segir Ragnheiður. Með því að nýta stafrænar lausnir færðu hamingjusamara starfsfólk og sjúklinga, að mati Ragnheiðar. Stytta megi ferla, spara sporin og veita betri þjónustu. „Ef þetta væri hátæknisjúkrahús þá væri starfsfólk að flykkjast hingað.““
Stóra spurningin er: hvers vegna hafa ekki orðið stafrænar framfarir í rekstri Landspítalans frá árinu 1995? Fréttir berast af fjárfestingum í hátæknibúnaði til lækninga. Þar hafa læknar sýnt frumkvæði og framsýni sem notið hefur stuðnings fjárveitingavaldsins, fyrirtækja og almennings. Þegar litið er til hátæknilausna í rekstrinum sjálfum varð stöðnun árið 1995 að mati formanns tækninefndar vísinda- og tækniráðs.
Árið 1995 kom þessi vefsíða til sögunnar. Væri hún enn rekin á sama hátt og þá var mætti líkja því við að skófla væri notuð til að grafa fyrir nýjum Landspítala eða hjólbörur til að flytja steypu í grunn nýja meðferðarkjarnans við Hringbraut.
Stöðnun Landspítalans í stafrænum lausnum og upplýsingatækni er hættulegri en fjárskorturinn sem flaggað er. Þetta breytist ekki með ríkisrekstri á öllum sviðum spítalaþjónustu. Stafrænar lausnir heilbrigðismálum kalla á frumkvæði og þátttöku einkaaðila. Séu þeir talin pest verður Landspítalinn áfram forngripur anno 1995.