13.1.2018 12:03

Landhelgisgæslan er stofnun á tímamótum

Þegar rætt er um LHG verður sjónarhornið að vera mun víðara en snýr að árlegum fjárveitingum. Að þær dugi til að halda starfseminni gangandi er að sjálfsögðu lífsnauðsynlegt...

Umræðurnar um fjárþörf Landhelgisgæslu Íslands (LHG) nú um áramótin vegna lækkunar á útgjöldum til hennar sem tók mið af gengisþróun hafa beint athygli að störfum gæslunnar meðal annars í leiðara Morgunblaðsins í dag (13. janúar). Þar eru rakin ákvæði lögum frá árinu 2006. Áratugum saman höfðu menn rætt nauðsyn nýrra laga fyrir LHG áður en núgildandi lög voru sett.

Lögin hafa nú dugað í 12 ár og gert LHG kleift að laga sig að gjörbreyttum aðstæðum. Gæslan sinnir áfram kjarnahlutverki sínu en hefur meira svigrúm en áður til að taka að sér ný verkefni eins og til dæmis umsýslu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli þar sem umferð eykst jafnt og þétt vegna breyttra aðstæðna í öryggismálum á Norður-Atlantshafi eins og rætt er hér.

Varðskipið Þór og eftirlitsflugvélin TF-SIF hafa jafnframt gert LHG að virkum þátttakanda í aðgerðum á heimaslóð og erlendis sem gæslunni var ókleift að sinna áður. Í Morgunblaðinu segir að TF-SIF, hafi á árunum 2010 til 2017  verið í verkefnum erlendis í samtals 947 daga. „Hægt er að kalla vélina heim fyrirvaralaust komi upp aðstæður sem krefjast þess,“ segir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.

Þessa mynd tók Daniel Lassen um borð í danska herskipinu Hvidbjørnen þegar TF-LIF lenti þar við æfingar um miðjan desember 2017. Myndin birtist á vefsíðu LHG. Samvinna LHG og danska flotans er mikil.

Ástæðulaust er að finna að því að LHG sendi TF-SIF til verkefna erlendis. Fyrir utan að LHG hafi af því tekjur öðlast starfsmenn gæslunnar mikilvæga þjálfun og reynslu við þessi verkefni.

Á árunum 2003 til 2009 var ekki aðeins unnið að því að setja LHG ný lög, smíða nýtt varðskip í Chile og kaupa nýja flugvél frá Kanada heldur var lagður grunnur að kaupum á nýjum þyrlum fyrir LHG.

Þegar við blasti að bandarísku herþyrlurnar yrðu kallaðar á brott frá Keflavíkurflugvelli varð að gera stórátak til að tryggja nægan fjölda björgunarþyrlna i landinu. Það var flókið verkefni. Skýrt var frá því að til að tryggja 99% þyrluþjónustu LHG yrði gæslan að ráða yfir fjórum þyrlum. Það markmið hefur ekki náðst.

Áform voru um samleið með Norðmönnum við kaup á þyrlum en frá þeim var horfið. Nú vinnur hópur manna enn á ný að gerð tillagna um þyrlur fyrir LHG. Verður spennandi að sjá niðurstöðu þeirra athugana.

Þegar rætt er um LHG verður sjónarhornið að vera mun víðara en snýr að árlegum fjárveitingum. Að þær dugi til að halda starfseminni gangandi er að sjálfsögðu lífsnauðsynlegt hitt er þó ekki síður mikilvægt að sótt verði fram af sama metnaði: að starfsemi LHG sé ávallt í samræmi við kröfur líðandi stundar og gæslunni sé gert fært að sækja fram á nýjum sviðum.

Stefnt er að nýju áhættumati fyrir Ísland. Að það sé unnið er löngu tímabært. Við gerð þess verður að líta til mikilvægs og vaxandi hlutverks Landhelgisgæslu Íslands og samstarfs hennar við nágrannaþjóðir okkar við gæslu sameiginlegs öryggis á öllum sviðum.