21.6.2023 9:42

Lærum af Finnum

Þegar finnski ráðherrann ber stöðuna í útlendingamálum saman við það sem er annars staðar á Norðurlöndunum er augljóst að hún lítur ekki til Íslands þegar hún skoðar slaka útlendingalöggjöf og stefnu.

Ný mið-hægri ríkisstjórn tók við völdum í Finnlandi þriðjudaginn 20. júní. Innanríkisráðherra Finnlands, Mari Rantanen (f. 1976), er úr Finnaflokknum. Hún sagði að morgni 20. júní í samtali við finnska ríkisútvarpið, Yle TV1, að hún ætlaði að gjörbreyta stefnunni í útlendingamálum í ráðherratíð sinni.

Mari-RMari Rantanen nýr innanríkisráðherra Finna.

Innanríkisráðherrann sagði að undanfarin ár hefðu Finnar fylgt slökustu útlendingastefnunni í norrænum samanburði.

„Við munum herða öll skilyrði að því er varðar komu til Finnlands, aðsetur hér og dvöl í Finnlandi,“ sagði Rantanen og minnti á að annars staðar á Norðurlöndum hefðu stjórnvöld einnig breytt um stefnu í útlendingamálum.

Í frétt Yle segir að eitt af lykilákvæðum í stjórnarsáttmála nýju stjórnarinnar sé að senda fleiri hælisleitendur sem fá ekki vernd í Finnlandi úr landi.

Þá er það markmið stjórnarinnar að tryggja að Finnar taki við eins fáum hælisleitendum og verða má – helminga eigi fjöldann sem er 1.050 manns í ár niður í um 500 á ári. Þegar litið er fram hjá COVID-árunum hafa að jafnaði um 5.000 manns sótt árlega um hæli í Finnlandi.

Til að árétta nauðsyn þess að spyrna við fótum benti Rantanen á reynslu Svía og sagði útlendingastefnu þeirra dæmi um „algjör mistök“.

„Hér verðum við að bregðast við því sem við höfum séð gerast í Svíþjóð. Við reynum að grípa til aðgerða sem tryggja að efnahag og öryggi Finnlands sé ekki ógnað,“ sagði nýi ráðherrann.

Þegar ráðherrann ber stöðuna í Finnlandi í útlendingamálum saman við það sem er annars staðar á Norðurlöndunum er augljóst að hún lítur ekki til Íslands þegar hún skoðar slaka útlendingalöggjöf og stefnu.

Leiðari Morgunblaðsins í dag er með fyrirsögnina: Útlendingamál og ríkisstjórnarsamstarf. Hann hefst á þeim orðum að það hrikti í ríkisstjórnarsamstarfinu rétt eftir þinglok og er þar sérstaklega vikið að útlendingamálum.

Ágreiningur milli stjórnarflokkanna um þessi mál hefur legið fyrir en magnast nú ár frá ári vegna þess hve slaki í stefnumörkun hér leggst þungt á ríkissjóð og grunnkerfi ríkis og sveitarfélaga. Í leiðaranum segir að heildartala kostnaðar á ári liggi ekki fyrir, giskað sé á 25-30 milljarða kr. á ári. Það séu engir smápeningar – öll aðföng Landspítalans á ári kosti um 20 milljarða.

Minnt er á að í fyrra hafi Ísland verið í 3. sæti allra Evrópulanda þegar horft sé til hælisumsókna frá öðrum löndum en Úkraínu, miðað við höfðatölu. Þá er vikið að Finnum – 5,5 milljón manna þjóð – og sagt, eins og fram kemur hér að ofan, að þeir hafi fengið um 5 þúsund hælisumsóknir í fyrra og veitt 1.050 hæli. Þetta séu ámóta margar umsóknir og á Íslandi og ámóta margir sem hafi fengið hæli sé öllum Úkraínumönnum sem hingað komu sleppt. „Eru Finnar þó 14 sinnum fleiri,“ segir í leiðaranum.

Allt er þetta satt og rétt. Á hitt ber svo að benda að nýi finnski ráðherrann ætlar að lækka töluna 1.050 í 500 til að verja efnahag og öryggi Finnlands. Nýi íslenski dómsmálaráðherrann ætti að kynna sér hvernig nýja finnska stjórnin tekur á útlendingamálunum. Staðan hér er út úr öllu korti hvernig sem á er litið.