Lært af rakningarreynslu
Standist ekki með vísan til greininga og reynslu að setja alla í sama flokk til að ná tökum á vandanum hljóta yfirvöld að taka mið af því, við landamærin eins og annars staðar
Ásdís Halla Bragadóttir, athafnakona og rithöfundur, hefur verið störf í Kaupmannahöfn í nokkrar vikur og býr sig nú undir heimkomu, þrjár COVID-skimanir og sóttkví á heimili sínu. Í pistli á Facebook í dag (20. apríl) segir hún:
„Ég fylgist með fréttum að heiman og sé að Samfylkingin ætlar að leggja fram frumvarp sem skyldar alla á sóttkvíarhótel sem koma til landsins. Ástæðan er einföld. Fyrir einhverju síðan kom til landsins maður sem virti hvorki reglur um sóttkví né einangrun. Í framhaldinu kom upp hópsmit og mér skilst að það hafi meðal annars gerst vegna þess að starfsmaður á leikskóla mætti til starfa þrátt fyrir að vera með flensueinkenni. Hvorugt er til eftirbreytni.
Veruleikinn er því miður sá að alltaf eru einhverjir sem ekki fara eftir lögum, reglum og tilmælum. Þær fáu undantekningar mega aldrei verða til þess að öllum verði hegnt. Eitt það besta sem gerst hefur á Íslandi undanfarin ár og áratugi er að við höfum reynt að efla skilning á ólíkum aðstæðum fólks, reynt að auka umburðarlyndi og víðsýni. Reynt að taka á málum af þekkingu en ekki sleggjudómum. Fyrirhugað frumvarp Samfylkingarinnar er afturhvarf til fortíðar. En það er ekki bara forneskjulegt heldur ósmekklegur popúlismi. Það rifjar upp fordómana sem ég þekki svo vel. Gengur út frá því að allir sem koma frá útlöndum hljóti að vera eins. Glæpamenn. Línan er einföld: Lokum allt þetta hyski inni. Bara svona til vonar og vara.“
Krafan um að loka alla inni verður undarlegri í ljósi þess sem haft er eftir Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í Morgunblaðinu í dag. Hann segir:
„Mér finnst mjög athyglisvert hvernig við höfum búið til forsendur fyrir almennilegri smitrakningu. Að raðgreina veiruna úr hverjum einasta manni sem hefur sýkst og nýta síðan stökkbreytingarmynstrið til að rekja hvernig veiran breiðist út. Í dag getum við sagt nokkurn veginn nákvæmlega hver smitaði hvern og hverjir smituðust af sama einstaklingnum, það er að segja hverjir mynda eina einingu.“
Kári hefur þrek til þess að skilgreina opinberlega ákveðinn hóp innan lands sem birtist þegar skoðað er „hver smitaði hvern“. Þá herma fréttir að krafan um að virða reglur um sóttkví nái ekki til allra í landinu, ekki hafi tekist sem skyldi að laga erlenda aðkomumenn að þjóðlífinu. Loks segir í fréttum að ástæðulaust sé að mati ríkissaksóknara að hækka sektir vegna sóttvarnabrota, þær eigi hins vegar að innheimta á staðnum til að erlendir ferðamenn fari ekki úr landi án þess að greiða 250.000 kr. sektir. Telur ríkissaksóknari að fælingarmáttur heimildar sóttvarnarlæknis til að skylda brotlegan einstakling til að sæta sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi sé mun meiri en hækkun sekta.
Auðvitað viljum við öll sem mest frelsi innan lands og enginn andmælir strangri landamæravörslu gegn veirunni. Standist hins vegar ekki með vísan til greininga og reynslu að setja alla í sama flokk til að ná tökum á vandanum hljóta yfirvöld að taka mið af því, við landamærin eins og annars staðar. Yfirvöldin verða að einbeita sér að þeim sem helst eru líklegir til að smita við komu til landsins bæði við greiningu þar og eftirfylgni.