29.7.2022 12:04

Kviksyndi Rússa í Úkraínu

Prófessorinn minnir á að hervaldi sé beitt til að styrkja pólitíska stöðu. Rússum hafi mistekist það og einangrist nú meira en áður í Evrópu. Tap þeirra sé meira en ávinningurinn.

Norska ríkisútvarpið, NRK, birtir í dag, 29. júlí, viðtal um innrás Rússa í Úkraínu og stöðu þeirra fimm mánuðum síðar við Tormod Heier, prófessor í herstjórnarlist og aðgerðum við háskóla norska hersins, Forsvarets høgskole.

Hann segir að enn sé óljóst hvernig stríðinu ljúki, eitt sé þó ljóst að það hafi ekki þróast á þann veg sem Pútin Rússlandsforseti ætlaði. Hernaðarlega hafi Rússar ekki staðið verr síðan í 2. heimsstyrjöldinni. Fimm strategískar breytingar gangi þvert á hagsmuni Rússa:

  • 1. Innrásin lokkaði her bandaríska erkióvinarins aftur til Evrópu.
  • 2. NATO færist nær rússnesku landamærunum í norðri með aðild Finna og Svía að bandalaginu.
  • 3. Einhugur innan NATO er meiri en áður.
  • 4. Þjóðverjar stórauka framlög sín til varnarmála.
  • 5. Rússneski herinn sé í kviksyndi.

Til að rökstyðja fimmtu fullyrðinguna bendir prófessorinn á að rússneski herinn sé fastur andspænis 250.000 hermönnum Úkraínu og geti sig ekki hreyft nema leitað sér eftir liðsstyrk frá norðurslóðum og landamærum Rússlands við Kákasus, Finnland og Pólland. Rússar geti ekki unnið stríðið með venjulegum vopnum. Þeir tapi stríðinu.

Prófessorinn minnir á að hervaldi sé beitt til að styrkja pólitíska stöðu. Rússum hafi mistekist það og einangrist nú meira en áður í Evrópu. Tap þeirra sé meira en ávinningurinn.

Heier segir ekki unnt að sigra í hernaði í öðru landi nema með þrisvar sinnum fleiri hermönnum en andstæðingurinn. Samhliða 190.000 hermönnunum í innrásarliðinu hefðu Rússar þurft að hafa 500.000 manna varalið til til reiðu vegna innrásarinnar í Úkraínu.

ADS_Bjorn-Bjarnason_1659096096306Framvinda stríðsins auki því miður líkur á að Pútin líti til kjarnavopna. Sært bjarndýr sé hættulegt bjarndýr.

Hann segir að nú verði ráðamenn á Vesturlöndum að stíga varlega til jarðar, tala opið og vera „fyrirsjáanlegir“ því að í Pútin-stjórninni myndist vænisýki við þrýsting og hjarðhugsun, allt í vestri sé túlkað á versta veg. Þegar stjórnin hafi fórnað hefðbundnum herafla sínum styttist leiðin að kjarnavopnunum og helstu skotstöðvar þeirra séu í norðri, á Kólaskaganum.

Vegna þess sé Rússum meira í mun en áður að verja kjarnorkuherafla sinn í norðri og skapa dýpt í þær varnir, þar með beini þeir athygli að norsku landsvæði. Stysta flugleiðin frá austurströnd Bandaríkjanna til Rússlands sé yfir Grænland, Svalbarða að Múrmanskfirði. Rússar hafi hag af eigin loftvörnum á Svalbarða, Bjarnareyju í Barentshafi og á norðurströnd Noregs í Finnmörk.

Prófessorinn útilokar innrás Rússa í Finnmörk. Þeir hafi aðeins áhuga á að efla varnir rússneska kjarnorkueraflans í norðri. Þess vegna velji þeir nokkra lykilstaði í þágu eigin varna fyrir utan að eyðileggja eftirlitskerfi NATO eins og ratsjár á fjallstindum í Norður-Noregi.

Heier telur litlar líkur á að til átaka komi milli Rússa og NATO í norðri, en aldrei sé unnt að vera fyllilega öruggur.

Samtali fréttamanns NRK við Tormod Heier prófessor lýkur á þessum orðum:

Spurning: Hvernig er valdahlutfallið milli NATO og Rússlands?

Svar: Rússland er hernaðarleg mýfluga. Fyrir utan kjarnorkuvopnin sem þeir eiga flest. Venjulegi heraflinn er miklu veikari en herafli Vesturlanda.

Spurning: Sefur þú enn vel á nóttinni?

Svar: Já. Ég held að það verði ekki nein stórstyrjöld á norðurslóðum. Rússar hafa enga burði hernaðarlegt ævintýri annars staðar í landi sínu núna.

Engu er við þessi orð að bæta nema því til glöggvunar að þegar herfræðingar ræða það sem kallað er „brjóstvörn“ langdrægu rússnesku kjarnorkukafbátanna á Kólaskaga er talið að ystu varnarmörk hennar í suðvestri séu við norðaustur Ísland.