15.10.2018 10:22

Kveinstafir í afmælisgreinum

Í báðum tilvikum er tilefnið notað til að kveinka sér undan því að Rússar sæti gagnrýni á Vesturlöndum. Þetta er sérkennilegur málflutningur í afmælisgreinum.

Anton Vasiliev, sendiherra Rússa á Íslandi, og Ágúst Andrésson, ræðismaður Rússa, hafa ritað greinar í Morgunblaðið 4. október og í dag (15. október) til að minnast 75 ára afmælis stjórnmálasambands Rússlands og Íslands.  Í báðum tilvikum er tilefnið notað til að kveinka sér undan því að Rússar sæti gagnrýni á Vesturlöndum. Þetta er sérkennilegur málflutningur í afmælisgreinum. Hann endurspeglar þá staðreynd að undir stjórn Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta er fylgt þeirri stefnu að Rússar séu umsetnir óvinum og þarfnist sterks leiðtoga til að veita sér forystu.

AfpGuðni Th. Jóhannesson hitti Vladimír Pútín í Arkhangelsk 30. sept. 2017.

Undanfarið hafa hrannast upp sannanir um að leyniþjónustu rússneska hersins, GRU, er beitt til net- og tölvuárása á aðrar þjóðir og launmorðingjar GRU voru afhjúpaðir á Englandi þegar þeir reyndu að gera út af við Sergei Skripal í Salisbury. Í afmælisgrein sinni 4. október leitaðist rússneski sendiherrann við að hvíþvo GRU og sagði Ísland hafa verið dregið „inn í vítahring tilhæfulausra ásakana í garð Rússlands“.

Ágúst Andrésson segir að pólitísk samskipti Íslands og Rússlands hafi gengið vel í 75 ár „þar til núna“ eins og hann orðar það. Hann talar um vestræn lönd innan gæsalappa og segir þau „svokölluð“, þau hafi ekki reynst vinir í raun í hruninu annað hafi gilt um Pólland, Færeyjar, Kína og Rússland. „Þessi staðreynd finnst ýmsum óþægileg, sérstaklega þeim sem sífellt eru að dásama hið vestræna samstarf og samstöðu,“ segir hann án þess að rökstyðja það nánar enda engin dæmi um að þeir sem hlynntir eru vestrænni samvinnu vilji leyna einhverju varðandi erlenda áhrifaþætti í hruninu eins og nýleg skýrsla dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar sýnir.

Ágúst lætur hjá líða að geta þess að Sovétmenn (Rússar) vildu hlutast til um innanríkismál Íslands í krafti viðskipta landanna. Þá minnist hann ekki á hótanir frá Moskvu um kjarnorkuárás á Ísland á níunda áratugnum ef sannaðist að kjarnorkuvopn væru á Íslandi en lygar um þau voru helsta áróðursbragð Rússavina hér á landi á þeim tíma.

Það sem Ágúst segir um samstöðu íslenskra stjórnvalda með vestrænum ríkisstjórnum vegna yfirgangs Pútíns og félaga er fært í þann búning að Rússar séu saklaus fórnarlömb. Þá getur hann þess ekki að það var Pútín sem ákvað að banna innflutning á fiski frá Íslandi og rauf þannig meira en 60 ára viðskiptatengsl.

„Hefði ekki verið nær fyrir okkur að halda hlutleysi okkar sem herlaus þjóð, heldur enn að láta draga okkur inn í eitthvað sem við hvort sem er getum ekki haft áhrif á, en einungis setið eftir með skaðann?“ spyr Ágúst og tekur með þessum orðum undir áróður sendiherrans um „vítahringinn“. Rétt er að minna á að Ísland er ekki hlutlaust ríki þótt það sé herlaust. Þá ber einnig að hafa í huga að hlutlausu þjóðirnar hervæddu utan hernaðarbandalaga, Finnar og Svíar, leggja höfuð áherslu á varðstöðu gegn Rússum í Eystrasalti og hafa samið sérstaklega við Bandaríkjamenn um hernaðarmál til að styrkja hana.

Geti talsmenn Rússa ekki minnst 75 ára afmælis stjórnmálasambands Íslands og Rússlands á annan hátt en með illa ígrunduðum áróðursgreinum í þágu Rússlands undir stjórn Pútíns, ættu þeir að gera það á lokuðum fundi sanntrúaðra.