24.7.2023 11:13

Kveikjan að hálfunnu Lindarhvolskýrslunni

Hálfunna plaggið sem Sigurður Þórðarson skrifaði og dreifði eftir að hann var hættur sem settur ríkisendurskoðandi eigi rætur að rekja til óánægju vegna starfsloka hans.

Lindarhvolsmálið svonefnda tók nýja stefnu fyrr í sumar þegar Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, birti hálfunna skýrslu Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda til eftirlits með Lindarhvoli, frá júlí 2018. Þetta hálfunna skjal ritaði Sigurður þegar hann hafði látið af störfum sem settur ríkisendurskoðandi samkvæmt samningi sem hann hafði sjálfur gert þegar hann tók að sér eftirlitsstarfið vegna vanhæfis þáverandi ríkisendurskoðanda.

Þegar alþingi kaus nýjan ríkisendurskoðanda, Skúla Eggert Þórðarson, í maí 2018, féll umboð Sigurðar Þórðarsonar niður. Settist hann síðan við skriftir og sendi hálfunna skýrslu sína til nokkurra aðila. Ríkisendurskoðun taldi um vinnuskjal að ræða. Það stæðist ekki kröfur stofnunarinnar um vönduð vinnubrögð og ætti þess vegna ekki að dreifa því opinberlega. Forseti alþingis og fjármála- og efnahagsráðuneytið fóru að þessum tilmælum. Varð það tilefni alls kyns samsæriskenninga sem fuku út í veður og vind þegar skjalið var birt. Sigurður Þórðarson sagði sjálfur að verkinu væri ólokið og allir sem lesa skjalið sjá að það er rétt mat. Ríkisendurskoðun fór í saumana á skjalinu og notaði það sem nýtilegt var við gerð lokaskýrslu um Lindarhvol ehf. í apríl 2020.

Við birtingu á skjalinu breyttist eðlilega viðhorf ríkisendurskoðanda til umræðna um málið og sá sem nú situr í embættinu, Guðmundur Björgvin Helgason, ræðir málið á mun opinskárri hátt en áður eins og heyra mátti sunnudaginn 23. júlí þegar Kristján Kristjánsson ræddi við hann í þætti sínum Sprengisandi á Bylgjunni, hlusta hér

F4401BB1DBAA5E35D8495E3F92637FDAF1A989660913E2ADB165C34C0DF7E298_713x0

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðanda  var á Sprengisandi 23. júlí 2023. (Mynd: Bylgjan).

Þá ályktun má draga af þessu fróðlega samtali að Sigurður Þórðarson hafi verið mjög ósáttur við að hætta eftirlitsstarfinu í maí 2018. Hálfunna plaggið sem hann skrifaði og dreifði eftir að hann var hættur eigi rætur að rekja til þessarar óánægju hans. Hann hafði þó sjálfur samþykkt að hætta þegar Lindarhvoll lyki störfum eða þegar nýr ríkisendurskoðandi tæki til starfa í stað þess sem var vanhæfur í Lindarhvolsmálinu. Síðara starfslokaskilyrðið leiddi til breytinga á ráðningu Sigurðar án þess að eftirmaður hans ætti þar nokkurn hlut að máli.

Í samtalinu víkur Kristján að því að svonefndu Lindarhvolsmáli hafi verið haldið á lífi vegna óánægju hóps manna sem bauð í Klakka ehf. (leifar Exista) yfir að tilboði þeirra var ekki tekið. Klakkur var seldur hæstbjóðanda fyrir 505 milljónir króna, lægsta tilboðið var 500 milljónir króna, munurinn er 1%. Síðan hækkaði Klakkur í verði. Í héraðsdómi var salan talin lögmæt. Síðari hækkun væri ekki til meðferðar fyrir réttinum. Málinu hefur verið áfrýjað til landsréttar.

Guðmundur Björgvin undraðist að Sigurður Þórðarson hefði borið vitni í þessu dómsmáli. Sigurður telur Klakka hafa verið seldan fyrir of lágt verð. Raunar notaði Guðmundur Björgvin af varfærni orðið „dylgjur“ þegar hann ræddi efni hálfunnar skýrslu Sigurðar.

Alvarlegasti þátturinn í samtalinu við Guðmund Björgvin snýr að framtíðinni. Hann telur að lög um ríkisendurskoðun hafi verið brotin með birtingu skýrsludraganna. Vegið sé að trausti í samskiptum ríkisendurskoðunar og alþingis. Trúverðugleiki stofnunarinnar sé í húfi. Aðeins þingmenn geti geti bætt úr þessum trúnaðarbresti.