Kunna ekki að skammast sín
Að sveitarfélag hafi ekki stjórnunarlega burði til að sinna skyldunni til að reka grunnskóla á viðunandi hátt er svo ámælisvert að stjórnendur þess ættu að biðjast lausnar.
Í leiðara Morgunblaðsins í dag, 24. ágúst, segir að það sé „með ólíkindum að horfa upp á vandræðagang borgaryfirvalda vegna Fossvogsskóla undanfarin ár“. Framganga borgaryfirvalda einkennist ekki aðeins „af tómlæti og vanhæfni“ heldur einnig „undanbrögðum og ósannindum“.
Þessi harði dómur en réttmætur. Nú er aldarfjórðungur liðinn frá því að rekstur grunnskóla fluttist frá ríki til sveitarfélaga.. Stjórn skólanna skyldi flutti nær þeim sem nutu þeirra og réttur foreldra til að hlutast til um velferð barna sinna í skólum skyldi aukinn. Við hvern skóla starfar ráð með aðild foreldra.
Sveitarfélög hafa lagt metnað sinn í að halda vel á málum grunnskóla innan síns svæðis. Fréttir af vandræðum eru helst frá Reykjavík þar sem grunnskólastarf er látið reka á reiðanum eins og svo margt annað við stjórn borgarinnar.
Vegna Fossvogsskólamálsins segir Morgunblaðið í leiðara sínum í dag:
„Ábyrgðin er samt augljós. Hana bera öðrum fremur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Skúli Helgason, formaður Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, sem báðir sitja í borgarstjórn fyrir Samfylkinguna. Þeir bera þó ekki skömmina einir, enda nóg af henni fyrir alla. Ábyrgðina ber gervallur borgarstjórnarmeirihlutinn, Píratar, Viðreisn og Vinstrigræn líka. Og skömmina líka.“
Þegar á þessa staðreynd er bent taka talsmenn
meirihlutans gjarnan að kveinka sér undan að mál séu gerð flokkspólitísk. Slík undanskot breyta engu fyrir þá sem glíma við vandræðin vegna óstjórnarinnar. Hún
er söm við sig og magnast aðeins í stóru og smáu.
Börn í Fossvogi eru nú selflutt í nýjan kastala Hjálpræðishersins í Mörkinni vegna myglu í skólahúsi þeirra (mynd mbl/Kristinn Magnússon).
Fjórir kennarar láta ekki af störfum við Fossvogsskóla af flokkspólitískum ástæðum. Þeir ganga á brott af því að þeir sætta sig ekki við aðgerða- og stjórnleysi borgaryfirvalda í málefnum skólans. Börnum er hins vegar skylt að sækja grunnskóla, þau og foreldrar þeirra eiga rétt á að borgaryfirvöld veiti þeim slíka þjónustu.
Að sveitarfélag hafi ekki stjórnunarlega burði til að sinna skyldunni til að reka grunnskóla á viðunandi hátt er svo ámælisvert að stjórnendur þess ættu að biðjast lausnar, segja sig frá ábyrgðinni sem á þeim hvílir úr því að þeir geta ekki risið undir henni.
Ekkert slíkt hvarflar þó að þeim sem sitja í ráðhúsi Reykjavíkurborgar. Skólaráð Fossvogskóla var ekki einu sinni kallað saman í aðdraganda setningar skólans að þessu sinni.
Eitt helsta einkenni frétta af því sem miður fer í Reykjavíkurborg er að borgarar eða fjölmiðlamenn fá engin svör. Stefnan er að þegja af sér vandræðin. Borgararnir ná helst eyrum valdhafanna með háværum kvörtunum á opinberum vettvangi.
Nú þegar gengið er til þess að bólusetja börn gegn kórónuveirunni mælast stjórnendur bólusetninga til þess að mótmælendur hræði ekki börnin með aðgerðum við Laugardalshöll. Þetta er eðlileg umhyggjusemi. Hún ræður ekki ferðinni hjá yfirstjórn skólamála Reykjavíkurborgar. Með stjórnarháttum sínum skapar hún öryggisleysi hjá börnum og kann ekki að skammast sín fyrir það.