27.10.2024 10:39

Kristrún afneitar Degi B.

Úr því að Dagur B. hlaut annað sæti við uppstillingu grípur Kristrún til þess ráðs að minna á réttinn til að strika hann út af lista. 

Að kvöldi laugardagsins 26. október fluttu netmiðlar frétt um svar Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingarinnar til kjósanda sem lýsti yfir áhuga á að kjósa Samfylkinguna en sætti sig ekki við Dag B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóra á listanum næst á eftir Kristrúnu í Reykjavíkurkjördæmi norður. Svar Kristrúnar var einfalt: Þá liggur beinast við að strika Dag B. út í kjörklefanum. Í þriðja sæti á þessum lista er Þórður Snær Júlíusson sem var mánuðum saman á lista sakborninga í svonefndu byrlunar- og símastuldarmáli.

1524908Kristrún Frostadóttir og Dagur B. Eggertsson (samsett mynd mbl.is).

„Ég er formaður flokksins og stýri málefnaáherslum með stjórn flokksins, Dagur verður óbreyttur þingmaður, ekki ráðherra, hann situr ekki í stjórn flokksins og mun ekki sitja í ríkisstjórn,“ skrifar Kristrún. Textann birti sá sem fékk hann sem skjáskot á Facebook-hópi íbúa Grafarvogs.

Flokksformaðurinn segist skilja „vel sjónarmið fólks sem vill ekki hafa“ Dag B. á listanum. Þá segir Kristrún:

„Dagur stýrir ekki S, ég geri það. Hann þarf að fylgja forystunni. Við erum í dauðafæri til að leiða raunverulegar breytingar í samfélaginu. Við megum ekki láta einn mann útiloka það - hann er aukaleikari, ekki aðal, í þessu verkefni. Staða hans á listanum breytir engu um áherslur S og þýðir ekki að ég sé samþykk öllu sem borgin hefur gert.“

Kristrún hefur haldið öllum spilum nærri sér og látið eins og allt sé í friði og spekt í kringum hana. Þegar framboðslistar Samfylkingarinnar í Reykjavík voru birtir á vefsíðu flokksins laugardaginn 26. október lýsti hún þar virkilegri ánægju með „sterka framboðslista“ og sagði Samfylkinguna bjóða „trausta forystu og nýtt upphaf fyrir Ísland“. Þau vilji „keyra á samstöðu frekar en á klofningsmálum“.

Sama dag sest hún síðan niður og hallmælir Degi B., lýsir sig ósammála ýmsu sem borgin hafi gert, nú verði hann hins vegar að fylgja sér, hún ráði flokknum.

Eftir að Kristrún hefur loks sýnt formannsvald sitt og hvernig hún beitir því blasir við að krýning hennar sem formanns og lofgjörðarrollan sem flokksmenn hafa síðan flutt um hana er samkvæmt fyrirmælum og flokkslínu. Þetta skýrir einnig fyrstu viðbrögð safnaðarins við gagnrýni á formanninn, sá sem leyfir sér slíka ósvinnu sé „hræddur“ við Kristrúnu.

Nú er stóra spurningin að sjálfsögðu hvort Dagur B. sé svo „hræddur“ við Kristrúnu að hann láti bjóða sér þessar „trakteringar“ af hennar hálfu.

Áður en Samfylkingin ákvað framboð sitt í Reykjavík bað einhver huldumaður að kannað yrði hver staða Dags B. væri meðal kjósenda í Reykjavík. Var því lekið að hann nyti lítilla vinsælda. Hér var getum að því leitt að Kristrún og bandamaður hennar, Jóhann Páll Jóhannsson, efsti maður á lista í Reykjavík suður, stæðu að baki könnuninni til að verjast sókn Dags B. við skipan Reykjavíkurlistanna.

Úr því að Dagur B. hlaut annað sæti við uppstillingu grípur Kristrún til þess ráðs að minna á réttinn til að strika hann út af lista. Af nýmælum Kristrúnar til bjargar Samfylkingunni er þetta frumlegast og segir mest um hana sem stjórnmálamann.