28.3.2017 17:56

Kreppan í húsnæðismálum

Eru ráð þeirra sem hafa þekkingu og reynslu í húsnæðismálum vísvitandi að engu höfð? Eða hlusta þeir sem ráða ferðinni aðeins á eigin sérvisku?

 

Á ruv.is segir í dag, þriðjudag 28. mars 2018:

„Ástandið á húsnæðismarkaði hefur ekki verið verra í hálfa öld, segir Sverrir Kristinsson, sem hefur starfað sem fasteignasali í Reykjavík síðan 1968. Hann segir þrennt til ráða. „Það þarf að gefa miklu fleiri lóðir byggingarhæfar, það þarf að byggja meira af tveggja og þriggja herbergja íbúðum og það þarf að byggja miklu hraðar en áður,“ segir hann.

Sverrir var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun. Hann á hálfrar aldar starfsafmæli sem fasteignasali á næsta ári. Spurður hvort neyðarástand ríkti á húsnæðismarkaði samsinnti hann því. Hann sagði verðhækkanir svo örar að mjög erfitt væri fyrir ungt fólk að safna sér fyrir sinni fyrstu íbúð.“

Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannars ehf., skrifaði grein undir fyrirsögninni: Komum skikki á byggingarmálin í Morgunblaðið fimmtudaginn 23. mars.

Fyrirtækið Hannarr ehf. taldi árið 2016 að það vantaði 4.000 íbúðir á landi, 2.300 íbúðir þyrfti á ári, nú metur fyrirtækið að skorturinn sé meira en 5.000 íbúðir. Á árinu 2016 var byrjað á byggingu 1.133 íbúða á landinu. Hannarr telur fullreynt að sveitarfélögin ráði við að leysa húsnæðisvandann.

Skortur á lóðum hækki íbúðaverð og sé lóðum einkum úthlutað til að þétta byggð, eins og í Reykjavík, hækki íbúðaverð enn frekar. Sigurður Ingólfsson segir:

„Lausleg skoðun á söluverði fasteigna á mismunandi stöðum í Reykjavík sýnir að þar sem þétting byggðar stendur aðallega yfir, er fasteignaverðið 40-50% hærra en t.d. í Úlfarsárdal (úthverfi), og er jafnvel 90-100% hærra eins og við Laugaveg. [...]

Hefði Reykjavíkurborg þannig úthlutað lóðum fyrir 4.000 íbúðir, 75 m2 að stærð, í Úlfarsárdal hefði það sparað kaupendum þeirra 48 milljarða króna í heild og borgin haft um leið tekjur af þeim upp á 15,3 milljarða kr. Hver íbúð hefði kostað um 30 milljónir kr. á verðlagi nú, sem hefði vafalaust lækkað enn frekar við mikið framboð íbúða.

Sparnaður um 10 millj. kr. á íbúð

Á framangreindum tölum sést að það er um 30% ódýrara að kaupa íbúð í úthverfi höfuðborgarsvæðisins en á þéttingarsvæðunum. Það er meira en 10 milljónir kr. miðað 75 m2 íbúð (nettó). Þetta er ríflega sú upphæð sem rætt er um að ungt fólk þurfi til að festa sér íbúð.“

Ná orð þeirra sem þekkingu hafa ekki lengur eyrum þeirra sem bjóða sig fram og veljast til forystu?