Kreppa grunnskólans
Segja má að í blaðinu sé vitnað í tvo á móti einum, tveir segja aðalnámskrána gallaða, „óskiljanlega“ og „óljósa“ en formaður KÍ telur hana fullnægjandi sem vinnutæki kennara.
Eftir flutning grunnskólans lágu árið 2000 fyrir nýjar námskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Áður en þær voru gerðar efndi menntamálaráðuneytið til funda um land allt undir kjörorðinu: Enn betri skóli.
Þar kynnti ég megininntak nýju skólastefnunnar, sem var lögð til grundvallar við gerð námskráa. Í stefnunni var nemandinn settur í öndvegi, frelsi hans og ábyrgð. Þar var boðað að grunnskóla mundi ljúka með því að nemandi hefði rétt til að taka samræmd próf sem síðan veittu honum réttindi. Þar var einnig vakið máls á því að ekki ætti að brjóta fjölbreytni á framhaldsskólastigi á bak aftur.
Allt gekk þetta eftir í góðri samvinnu við tugi ef ekki hundruð manna. Fyrir lá námskrá með mælanlegum markmiðum og eindreginn vilji til þess að sem mestar upplýsingar yrðu birtar um árangur í skólastarfi svo foreldrar og aðrir gætu fylgst með hvernig til tækist.
Miklar umræður um skólastarf sköpuðust vegna námskrárgerðarinnar. Um þær geta menn fræðst með því að skoða það sem um þetta birtist hér á síðunni á þessum árum. Frá því að ég bar ábyrgð á málaflokknum les ég aðeins um framvindu mála. Í dag (15. júlí) vöktu tvenn ummæli í Morgunblaðinu athygli mína.
Atli Harðarson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands, segir að aðalnámskrá grunnskólans sé „óskiljanleg“. Það séu „sirka þúsund hæfniviðmið“ en flest þeirra séu orðuð þannig að ekki nokkur einasti maður skilji hvað þau þýði.
„Það veit enginn hvað blessuð börnin eiga að kunna,“ segir Atli og bætir við: „Það er afskaplega óljóst hvað börnin eiga að kunna og þegar þetta kemur saman, að kennararnir eru ekkert sérstaklega sterkir í sumum fögunum sem á að kenna, og það er frekar óljóst hvað á að koma út úr þessu, þá er svolítið erfitt að bretta upp ermarnar, það er bara þannig.“
Framar í sama tölublaði er rætt við Magnús Þór Jónsson, formann Kennarasambands Íslands (KÍ), sem telur að gefið sé til kynna „að einhvers staðar séu kennarar eða skólar sem eru ekki að fylgja námskránni“ og finnst formanninum þetta „alvarleg aðdróttun“ sé hún ekki rökstudd á nokkurn hátt.
Rætt er við Magnús Þór vegna Dagmálaviðtals á mbl.is við Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóra Réttarholtsskóla, sem sagði m.a. að ekkert eftirlit væri með einkunnagjöf kennara í grunnskólum. „Gagnrýndi Jón Pétur auk þess að aðalnámskrá grunnskóla og hæfniviðmið væru óljós,“ segir í frétt blaðsins.
Segja má að í blaðinu sé vitnað í tvo á móti einum, tveir segja aðalnámskrána gallaða, „óskiljanlega“ og „óljósa“ en formaður KÍ telur hana fullnægjandi sem vinnutæki kennara.
Mælanleg viðmið og samræmd próf hafa verið fjarlægð á markvissan hátt úr námskránni með þeim rökum að þau „stýri“ um of námi og skólastarfi. Vegna þátttöku í fjölþjóðlegri könnun kemur svo í ljós að geta nemenda á Íslandi minnkar.
Margar spurningar vakna: Fyrir hverja er skólinn? Hvers vegna er þessi ótti við mælanlegan árangur? Og birtingu upplýsinga?