6.4.2024 10:29

Kreppa blaðamannafélagsins

Starfshættir forystu BÍ grafa undir trausti til íslenskrar blaðamennsku. Dapurlegt er að helsta skjól þessa hóps sé að finna á opinberri fréttastofu ríkisútvarpsins.

Blaðamannafélag Íslands (BÍ) stendur að auglýsingaherferð til að segja almenningi að blaðamennska hafi aldrei verið mikilvægari en einmitt núna. Það er ekkert sérstakt ytra tilefni fyrir þessari auglýsingu enda sýnist megintilgangur hennar vera að efla sjálfstraust félagsmanna BÍ eða kannski aðeins forystu félagsins sem er undir stöðugri ágjöf innan og utan félagsins.

Nýjasta dæmið um ágreining innan BÍ er gagnrýni á sjálfkjörinn formann félagsins og starfandi framkvæmdastjóra, Sigríði Dögg Auðunsdóttur, fyrir hvernig staðið var að ráðningu nýs framkvæmdastjóra, Freyju Steingrímsdóttur. Á vefsíðu Mannlífs var föstudaginn 5. apríl sagt frá því að Sigríður Dögg neitaði að skýra frá því hverjir sóttu um starf framkvæmdastjórans,

„Varðandi nöfn annarra umsækjenda þá eru þær trúnaðarmál enda félagið ekki opinber stofnun,“ svaraði Sigríður Mannlífi. Svarið vekur undrun blaðamannsins, Brynjars Birgissonar, sem bendir á að 3. apríl hafi Sigríður Dögg sagt við Mannlíf um markmið sín sem formaður;

„Þá er hafin vinna í öllum stjórnum félagsins við að skýra alla umgjörð um rekstur félagsins, auka gagnsæi og setja reglur um starfsemina.“

Hjálmar Jónsson hafði starfað fyrir BÍ frá 1989, verið framkvæmdastjóri þess frá 2003 og formaður frá 2021 þegar Sigríður Dögg varð formaður og rak Hjálmar síðan úr starfi 10. janúar 2024. Þá sagði Hjálmar við mbl.is:

„Ég tel formanninn [Sigríði Dögg] ekki starfi sínu vaxinn og ég tel heldur ekki að fólk sem hefur ekki hreinan skjöld í fjármálum og gefur ekki skýringar í þeim efnum eigi að vera í forsvari fyrir félag eins og Blaðamannafélag Íslands sem stendur fyrir gildi opinnar og lýðræðislegrar umræðu.”

Þessi tvö dæmi, ráðning nýs framkvæmdastjóra BÍ og brottrekstur Hjálmars, sýna að Sigríði Dögg er ekki að skapi að veita upplýsingar hvorki um starfsemi BÍ né fjármál sem snúa að skattgreiðslum hennar sjálfrar.

Journalist Computer Images - Free Download on Freepik

„Við þurfum öll að leita staðreynda“ segir í auglýsingu BÍ en þegar leitað er staðreynda hjá formanni félags sem þannig auglýsir er skellt í lás og neitað að svara. Í grein sem Hjálmar Jónsson birti á Vísi 11. janúar sagði hann m. a.:

„Núverandi formaður BÍ [Sigríður Dögg] er illa haldin af „íslensku veikinni“, sem ég kýs að kalla svo, og felst í því að setja sjálfum sér sérreglur og öllum öðrum aðrar reglur. Það er þjóðarósiður. Ég veit ekki hversu oft ég hef upplifað það á fjörutíu ára ferli sem blaðamaður, að brotamenn setji í herðarnar og segi manni að éta það sem úti frýs, reglurnar gildi um alla aðra en þá.“

Auglýsingin sem Sigríður Dögg birtir er í anda þess sem Hjálmar kallar hér „íslensku veikina“. Þar er reynt að telja almenningi trú um að blaðamenn njóti sérstöðu vegna þess að þeir leiti staðreynda fyrir aðra. Að leitin að staðreyndum megi ekki beinast að blaðamönnunum sjálfum hefur birst undanfarið í þeim hópi sem stendur vörð um Sigríði Dögg sem formann BÍ.

Starfshættir forystu BÍ grafa undir trausti til íslenskrar blaðamennsku. Dapurlegt er að helsta skjól þessa hóps sé að finna á opinberri fréttastofu ríkisútvarpsins. Til að endurvekja traust á íslenskri blaðamennsku þarf ríkisútvarpið að skýra frá staðreyndum, lofta út og hleypa inn ferskum vindum og birtu. 

Eftirskrift: Í auglýsingu BÍ er svartur krossfáni en fáni Palestínu blaktir í réttum litum.