30.7.2024 10:37

Kosningasvindlari í Venesúela

Einræðisherrar allra landa sameinast til stuðnings Maduro. Það kann að duga honum lítið hafi hann ekki lögreglu- og hervald til að brjóta þjóðina til hlýðni.

Allt er á öðrum endanum í Venesúela eftir konsingasvindlið sunnudaginn 28. júlí – opinbera niðurstaðan er að sitjandi forseti, sósíalistinn, Nicolás Maduro hafi fengið 51,2% atkvæða en Edmundo González, helsti andstæðingur hans, 44,2%. Þessar tölur eru í ósamræmi við það sem þeir segja sem hafa annars konar aðgang að talningu atkvæða eða könnun á viðhorfi kjósenda á kjörstað. Þar er talað um að andstæðingur Maduros hafi fengið allt að 70% atkvæða.

Fréttir frá Venesúela minna á það þegar Aleksander Lukasjenko var lýstur réttkjörinn forseti Belarús að loknum kosningum í ágúst 2020. Opinberlega var niðurstaðan að hann nyti stuðnings rúmlega 80% kjósenda þegar almenn skoðun var að andstæðingur hans Sviatlana Tsikhanouskaja hefði stuðning um 60% kjósenda. Hún hefur síðan verið landflótta en Lukasjenko stjórnað í skjóli Vladimirs Pútins Rússlandsforseta.

Sömu leiðtogar og fögnuðu Lukasjenko í Rússlandi, Kína, N-Kóreu og Íran fagna nú þegar Maduro heldur völdum með kosningasvindli. Við bætast einræðisríki sósíalista eins og Níkaragva og Kúba. Maduro rak sendiráðsmenn frá að minnsta kosti sjö S-Ameríkuríkjum úr landi mánudaginn 29. júlí fyrir að draga lögmæti kosningaúrslitanna og framkvæmd kosninganna í efa.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórn Maduros ákveður kosningatölur að eigin geðþótta til að ljúga um lögmæti sitt. Stjórnkerfi Venesúela er gjörspillt og efnahagur þjóðarinnar í rúst þótt landið sé einstaklega auðugt frá náttúrunnar hendi. Milljónir manna hafa flúið undanfarin ár og brostnar vonir um batnandi tíð vegna kosninganna nú verða til þess að enginn vill snúa ótilneyddur til Venesúela að nýju.

Screenshot-2024-07-30-at-10.35.20Lögregla Maduros berst við mótmælendur

Þessu höfum við kynnst í fréttum hér á landi af hópi fólks frá Venesúela sem kom saman til bæna við Hallgrímskirkju á sunnudaginn og í gær (29. júlí). Snerust bænir fólksins um að Maduro og klíku hans yrði komið frá völdum og leyndu vonbrigðin sér ekki þegar niðurstaðan varð önnur.

Fleira er líkt með stjórnarháttunum í Belarús og Venesúela en fölsuð kosningaúrslit. María Corina Machado var upphaflegur frambjóðandi andstæðinga Maduros en eftir að henni var bannað að heyja við hann kosningabaráttu kom gamall diplómati, Edmundo González, í hennar stað. Í Belarús varð Sviatlana Tsikhanouskaja staðgengill eiginmanns síns, Sergei Tikhanovskíj.

Í fréttum frá Venesúela segir að athygli veki við mótmælin þar hve mikil þátttaka sé úr hverfum og byggðum þar sem fylgismenn upphafsmanns sósíalistastjórnar landsins, Hugos Chávez, hafa aðsetur. Þaðan komi aðgerðarsinnar sem gangi um götur með slagorð gegn kosningasvindli.

Vitað er að þrjár styttur af Hugo Chávez voru felldar af stalli mánudaginn 29. júlí. Í huga margra minna þeir atburðir á sögulegar myndir af því þegar stytta af Saddam Hussein, einræðisherra í Írak, var brotin af stalli sínum í miðborg Bagdad.

Einræðisherrar allra landa sameinast til stuðnings Maduro. Það kann að duga honum lítið hafi hann ekki lögreglu- og hervald til að brjóta þjóðina til hlýðni.