5.4.2025 15:04

Kópavogsfundur um öryggismál

Það kom glöggt fram á fundinum í Kópavogi að meðal sjálfstæðismanna er mikill áhugi á þessum málum. Minnt var á að varnar- og öryggismál hefðu áratugum saman verið ein öflugasta stoðin undir forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins á íslenskum stjórnmálavettvangi. 

Sólveig Pétursdóttir, fyrrv. dómsmálaráðherra, formaður sjálfstæðiskvenfélagsins Eddunnar í Kópavogi, boðaði í morgun (5. apríl) til fundar í húsakynnum Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi um varnar- og öryggismál.

Þar töluðu auk Sólveigar og mín þingmenn Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Bryndís Haraldsdóttir. Þær hafa báðar áunnið sér sess í alþjóðastarfi: Þórdís Kolbrún sem farsæll utanríkisráðherra á miklum óvissutímum og Bryndís á norrænum vettvangi meðal annars sem öflugur forseti Norðurlandaráðs á tímum þegar Finnar og Svíar gerðust aðilar að NATO og starfsemi ráðsins tók stakkaskiptum.

Á tímum þegar þjóðir telja sig þurfa að huga að ógnum við eigið öryggi fá öryggis- og varnarmál forgang í stjórnmálaumræðum og við afgreiðslu fjárlaga. Málum er þannig háttað á Norðurlöndunum og flestum löndum Norður-Evrópu um þessar mundir. Á suðurvæng ESB vilja Ítalir og Spánverjar ekki ganga eins hratt fram við hervæðingu og ríkin í norðri og austri.

Att.isiy345NgnXJs2HBFDLGs8vaOetr34iqs0KaBcPR194Ræðumenn á fundinum í Kópavogi: Bryndís, Björn, Þórdís Kolbrún og Sólveig (mynd: Hanna Carla).

Rætt var í Kópavogi um að Ísland sætti gagnrýni fyrir að leggja ekki nægilega mikið fé af mörkum til varnarmála. Þórdís Kolbrún sagði að á öllum listum um útgjöld NATO-ríkja til hermála væri sérstaða Íslands viðurkennd. Á hinn bóginn þýddi það ekki að eðlilegt þætti að ein ríkasta þjóð Evrópu legði lítið sem ekkert af mörkum í sameiginlegu átaki til stuðnings Úkraínu. Það yrðum við einfaldlega að gera og það með stolti vegna stuðnings við varnir sameiginlegra gilda. Fyrir þeim málstað myndi hún berjast.

Ég er sammála afstöðu Þórdísar Kolbrúnar. Raunar undrast ég hve margir snúast öndverðir gegn þessu og láta eins og um brot á einhverju íslensku prinsippi sé að ræða. Við sendum þó menn til friðargæslu á Balkanskaga og í Afganistan undir merkjum NATO utan skilgreinds varnarsvæðis. Ég man ekki eftir sömu vandlætingaröddum þá.

Varla heyrast þessar raddir núna vegna þess að menn dragi taum Rússa? Úkraínustríðið er miklu meiri ögrun við stjórnarfar okkar og öryggi í öllu tilliti en átökin í Afganistan eða á Balkanskaga á sínum tíma, fyrir utan á þá voru Íslendingar sendir á átakasvæði og nutu sérstakrar þjálfunar til sjálfsvarnar.

Það kom glöggt fram á fundinum í Kópavogi að meðal sjálfstæðismanna er mikill áhugi á þessum málum. Minnt var á að varnar- og öryggismál hefðu áratugum saman verið ein öflugasta stoðin undir forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins á íslenskum stjórnmálavettvangi. Það væri enn þörf fyrir þessa forystu flokksins og ríkari krafa um skýra og rökfasta stefnu væri gerð til hans en annarra flokka.

Augljóst er að Þórdís Kolbrún og Bryndís átta sig á þessu hlutverki þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þær hafa báðar aflað sér reynslu og þekkingar til þeirrar forystu sem þarf til að gæta hagsmuna lands og þjóðar sem best.

Ég fékk óvænta spurningu um hvort þriðja heimsstyrjöldin væri kannski hafin. Því sló ég ekki föstu en við værum örugglega á gráu svæði. Bent var á að ég talaði um aðra heimsstyrjöldina en ekki þá síðari. Ég sagðist hafa byrjað á þessu fyrir nokkru. Sagan hefði ekki endað með hruni Sovétríkjanna eins og sumir spáðu heldur endurtæki hún sig.