22.7.2022 9:09

Kolefnisbinding landbúnaðar

Það er í raun þungamiðja þess að hér þróist og þrífist landbúnaður, að  kolefnisbinding sé lögð að jöfnu við hefðbundna nýtingu jarðar í landbúnaði.

Þeir sem lesið hafa landbúnaðarstefnuna Ræktum Ísland! sem kom út fyrir tæpu ári á vegum Kristjáns Þórs Júlíussonar, þáv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undrast ekki að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skuli komast að þeirri niðurstöðu að með ræktun jarðar og landbúnaði sé skynsamlegast að vinna að framkvæmd loftslagsmarkmiða og binda kolefni.

Sagt er frá skýrslunni í Morgunblaðinu í dag (22. júlí) en auðvelt er að nálgast hana hér

Í mars 2021 samdi umhverfisráðuneytið við hagfræðistofnun um að stofnunin legði mat á kostnað og ábata af aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum sem kynntar voru um mitt ár 2020. Niðurstaða matsins er að hagkvæmustu loftslagsaðgerðirnar virðast vera:

  1.  Efling landgræðslu.
  2. Efling skógræktar.
  3. Endurheimt votlendis.
  4. Raftenging við skip í höfnum.
  5. Skattar á losun flúrlofts (f-gasa) og beinar takmarkanir á innflutningi þess.
  6. Orkuskipti í ferjum.
  7. Föngun kolefnis frá jarðhitavirkjunum.
  8. Álagning kolefnisgjalds.

Soil-grass-carbon-farming-adobestock-357924853Í greinargerð fyrir landbúnaðarstefnunni Ræktum Ísland! segir meðal annars:

„Landbúnaðarland, vel fallið til ræktunar matvæla og fóðurs, er verðmæt auðlind og skal almennt ekki ráðstafa þessu landi til annarra nota með óafturkræfum hætti. Samkeppni um land má ekki verða til þess að land- búnaðarlandi sé fórnað til annarra nota en ræktunar. Stuðla ber að því að sem mest land sé unnt að flokka að bestu gæðum til matvælaframleiðslu, fóðurframleiðslu, beitar, kolefnisbindingar eða annarra mælanlegra nota sem leggja mætti til grundvallar við ráðstöfun fjár úr sjóðum til bættra landnytja.“

Þetta er í raun þungamiðja þess að hér þróist og þrífist landbúnaður, að hugað sé að landinu og nýtingu þess í því skyni sem að ofan er nefnt þar sem kolefnisbinding er lögð að jöfnu við hefðbundna nýtingu jarðar í landbúnaði.

Eins og sést á listanum hér fyrir ofan setur hagfræðistofnunin eflingu landgræðslu í efsta sæti. Um það þarf að nást sátt hvernig best sé að henni staðið og litið sé til alþjóðlegra rannsókna samhliða innlendrar reynslu í því efni. Það liggja meðal annars fyrir niðurstöður sem sýna að binding kolefnis í beitarlandi sé meira virði en í skógum.

Í landbúnaðarstefnunni Ræktum Ísland! segir meðal annars:

„Í loftslagsmálum skiptir mestu að hvati sé skapaður fyrir framlag bænda með því að innleiða kerfi alþjóðlegra vottaðra kolefniseininga sem veiti þeim aðgang að sífellt stærri markaði kolefnisbúskapar.“

Ný skýrsla hagfræðistofnunar staðfestir réttmæti þessara orða. Stefnan um hvernig virkja beri bændur til kolefnisbindingar hefur verið mótuð. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum og hrinda henni í framkvæmd. Til þess ber að nota nýsköpunar- og styrkjakerfi á markvissan hátt.