29.12.2023 10:02

Köld kveðja frá Austurvelli

Hælisleitendakerfið á Íslandi sprakk undan álaginu og á því verður að taka. Það er því köld kveðja sem Íslendingar fá nú úr tjaldbúðum á Austurvelli.

Í vetrarkulda um miðjan mars 2019 reistu hælisleitendur og flóttamenn stórt tjald á Austurvelli og klæddust svörtum ruslapokum til að „verjast veðráttunni“ eins og sagt var í fréttum. Haft var eftir Milads, flóttamanni frá Íran, sem hafði verið brottvísað til Grikklands, að nóttin hafi verið nístingsköld. Amal frá Afganistan sagði á vefsíðunni Stundinni „betra að vera í snjónum á Austurvelli en í búsetuúrræði hælisleitenda, Ásbrú. „Ásbrú er eins og fangelsi. Það er betra að vera hér en á Ásbrú,“ segir hann“.

1461144-1-Við Alþingishúsið 27. desember 2023 - krafist funda með ráðherrum (mynd:mbl/Eyþór).

Íslenskir aðgerðarsinnar (No Borders) lentu í útistöðu við lögreglu vegna mótmælanna í mars 2019. Nú hafa aðgerðarsinnar (No Borders) og flóttamenn enn reist stórt tjald á Austurvelli til að verjast vetrarkuldum, að þessu sinni er það gert til að knýja á um svör vegna krafna um „fjölskyldusameiningu palestínsks flóttafólks“. Hópurinn sendi tilkynningu til fjölmiðla að kvöldi fimmtudagsins 28. desember þar sem krafist er fundar og svara frá félags- og vinnumarkaðsráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra.

Í tilkynningunni er fullyrt að íslensk stjórnvöld feli „sig bakvið þá staðhæfingu að ekki sé hægt að koma flóttafólki hér til landsins vegna lokaðra landamæra“.

Aðferðirnar við að knýja á um úrlausn þessa máls benda til þess að þeir sem standi að baki þeim séu úr hópi þess fólks sem beitir sér fyrir aðgerðum gegn ríkisstjórninni þegar hún fundar eða eltir einstaka ráðherra á opinbera fundi til að ofsækja þá og eyðileggja fundina. Það sýnir mikla óskammfeilni að þeir sem þannig haga sér setji flóttafólk út á guð og gaddinn á Austurvelli til að heimta fundi með ráðherrum!

Það er treyst á að innlendir fjölmiðlamenn gleypi við þessum kröfum og aðgerðum í nafni fjölskyldusameiningar án þess að setja þær í samhengi við annað sem gerist á þeim palestínska baráttuvettvangi sem reynt er að skapa hér á landi. Þeir sem eiga um sárt að binda vegna átakanna á Gaza njóta sama réttar og aðrir samkvæmt íslenskum lögum, engir fundir með ráðherrum breyta því.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir í Morgunblaðinu í dag (29. des.) að frá árinu 2016 hafi fjöldi hælisleitenda hér aukist um tæp 300%. Sé litið til Norðurlandanna í heild fái Ísland hlutfallslega langflestu hælisumsóknirnar, 580 umsóknir á hverja 100.000 íbúa á árinu 2022. Annars staðar á Norðurlöndunum sé meðaltalið rúmlega 90 umsóknir. Hér hafi heildarfjöldi þeirra sem fengið hafi vernd, ef frá séu taldar umsóknir frá Venesúela og Úkraínu, tvöfaldast frá árinu 2021. Telur ráðherrann réttilega að við leggjum „okkar af mörkum til málaflokksins og gott betur“. Þetta valdi miklu álagi á íslenskt samfélag og kostnaðurinn hafi vaxið óhóflega við verndarkerfið, hann sé nú ríflega 15 milljarðar á ári.

Hér skal ekki lagt mat á réttarstöðu þeirra sem krafist er að fái hér hæli með mótmælum á Austurvelli. Haldi mótmælendur að íslensk stjórnvöld daufheyrist við óskum þeirra sem leita hér hælis er það alrangt. Tölurnar sem hér eru birtar tala sínu máli og vega eðlilega þungt þegar heildarmyndin er skoðuð. 

Hælisleitendakerfið á Íslandi sprakk undan álaginu og á því verður að taka. Það er því köld kveðja sem Íslendingar fá nú úr tjaldbúðum á Austurvelli.