24.8.2019 8:27

Kolbrún um eitursnjallar stílæfingar

„Það er ekkert áhlaupaverk að þýða verk eins og þetta og hún hefur leyst það af mikilli prýði.“

Kolbrún Bergþórsdóttir, menningarritstjóri Fréttablaðsins, birti þessa umsögn í blaðinu í gær, 23. ágúst:

Bækur

★★★★★

Stílæfingar

Raymond Queneau

Þýðing: Rut Ingólfsdóttir

Útgefandi: Ugla

Blaðsíður: 176

Það er sérstakt fagnaðarefni að fá á íslensku hina snjöllu bók og stórskemmtilegu bók Stílæfingar eftir hinn franska Raymond Queneau en hún kom fyrst út árið 1947 og hefur verið þýdd á fjölda tungumála.

Í bókinni segir höfundurinn sömu söguna níutíu og níu sinnum með margvíslegum stílbrögðum. Hin örstutta saga snýst um mann í strætisvagni sem fer að rífast við annan mann. Seinna um daginn sést hann á öðrum stað tala við vin sinn.

Höfundur fer á kostum í bók sem hrein unun er að lesa. Bókin er fyndin og frumleg og endalaust má dást að hugmyndaauðgi höfundar. Kaflarnir níutíu og níu eru allir stuttir og sumir drepfyndnir, eins og þegar sagan er sögð með hiki eða neitunum eða sem opinbert bréf eða þá sem yfirheyrsla. Einn kaflinn heitir Svo og þar byrja allar setningar á þessu smáorði.

Stilaefingar.width-1220Þetta er bók fyrir alla sem hafa áhuga á tungumálinu og því hvernig leika má sér með það. Hún ætti skilyrðislaust að vera skyldulesning í námskeiðum í ritlist. Þarna eru alls kyns heillandi stílæfingar. Þegar líður á verkið verða sumir kaflarnir nokkuð sérviskulegir eins og þegar sagan er sögð samkvæmt rúmfræði: „Í rétthyrndum samhliðungi sem hliðrast eftir beinni línu með jöfnuna 84x +S= y …“ Það er sannarlega hægt að segja sögu á óvenjulegan hátt.

Rut Ingólfsdóttir þýðir verkið og skrifar eftirmála um glímuna við þýðinguna. Það er ekkert áhlaupaverk að þýða verk eins og þetta og hún hefur leyst það af mikilli prýði. Það er alltaf álitamál hvort það eigi að staðfæra og heimfæra í þýðingum, en það gerir Rut til dæmis í kaflanum Eiginnöfn. Eins og hún segir sjálf gerir hún það vegna þess að væri það ekki gert myndi merkingin fara fyrir ofan og garð og neðan hjá íslenskum lesendum.

Venjulega eru lesendur ekki mikið að velta fyrir sér hlut þýðandans þegar þeir lesa þýddar bækur en þeir hljóta að gera það við lestur þessarar bókar því þýðingarglíman blasir við í köflum eins og þeim áðurnefnda Eiginnöfn, og fleirum eins og ítölskuskotnum kafla og öðrum sem nefnist Sveitalegur. Rut á skilið þakklæti fyrir að hafa komið bókinni til íslenskra lesenda og sömuleiðis útgáfufyrirtækið Ugla.