29.1.2019 7:51

Klukkan verður ekki færð aftur fyrir 2003 í orkumálum

Orkumálin og ESB voru mikið til umræðu á alþingi í aðdraganda innleiðingar fyrsta orkupakkans árið 2003. Þá voru teknar stefnumótandi ákvarðanir til framtíðar.

Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður og LLM í orkurétti skrifar grein í Morgunblaðið í dag (29. janúar) þar sem hann veltir réttilega fyrir sér hvor deilurnar sem orðið hafa um þriðja orkupakkann, það er gerð ESB frá árinu 2009 sem utanríkismálanefnd alþingis hefur talið að falli að EES-samningnum og þess vegna beri að lögleiða hér snúist í raun um þennan orkupakka. Hilmar segir:

„Ef andstaða við þriðja orkupakkann snýst í reynd um að vinda ofan af ákvörðunum sem teknar voru við innleiðingu fyrsta orkupakkans árið 2003, viðurkennum það þá. Eins og fram kemur í frumvarpi er varð að raforkulögum árið 2003, þá byggðist frumvarpið á tilskipun Evrópusambandsins og vinnu stjórnvalda frá 1996. Á árinu 1998 var samþykkt þingsályktunartillaga um framtíðarskipan orkumála (122. löggjafarþing) þar sem Alþingi fól iðnaðarráðherra að ráðast í vinnu með það að markmiði taka upp að evrópskri fyrirmynd markaðsumhverfi á sviði raforkuviðskipta. Það var vandað til verks og meðvitað verið að innleiða frelsi í viðskiptum með raforku. Lögfesting eða höfnun þriðja orkupakkans mun engu breyta um þá stöðu. Við búum við þetta frelsi hvernig sem þriðja orkupakkanum reiðir af.“

Dollarphotoclub_80185193Orkumálin og ESB voru mikið til umræðu á alþingi í aðdraganda innleiðingar fyrsta orkupakkans árið 2003. Til dæmis var rætt um ýmsar gerðir ESB á þingi 4. maí 2000 og þá sagði Tómas Ingi Olrich, framsögumaður meirihluta utanríkismálanefndar, meðal annars:

„Lykillinn að þessari markaðsvæðingu orkumálanna hefur verið að flutningakerfin standi samkeppnisaðilum opin. Það er minna atriði hverjir eru eigendur flutningakerfanna. Aðalatriði málsins er að virk samkeppni komist á þar eð öllum standi til boða að nýta flutningakerfin. Ef flutningakerfin duga ekki þá eru heimildir og sérstök ákvæði um að flýta skuli fyrir uppbyggingu flutningakerfa. Þetta hefur reynst mjög mikilvægt fyrir þróun Evrópusambandsins. Að vísu hefur þetta líka neikvæð áhrif. Eins og gefur að skilja hefur markaðsvæðingin á sér tvær hliðar. Þetta hefur leitt til þess að orka er mjög ódýr í Evrópu og orkufyrirtækin fjárfesta ekki í umhverfisvænni orku.

Hér hefur verið rætt um hversu mikla þýðingu þessi orkumarkaður hefði fyrir Ísland. Frá mínum bæjardyrum séð kemur þetta til með að hafa, a.m.k. fyrst til að byrja með, frekar litla þýðingu fyrir íslenska markaðinn því að hann er einangraður. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að hér geti orðið raunhæf samkeppni um framleiðslu og sölu á raforku. En hér hlýtur að gilda það sama og í Evrópu, að til þess að slík samkeppni komist á er afar mikilvægt að menn hafi jafnan aðgang að flutningakerfunum. Yfirleitt er í þessum reglum um samkeppni á orkumarkaði gengið mjög tryggilega frá því að fyrirtækin sem annast framleiðslu og sölu á orku geti ekki einokað flutningakerfin.

Ég get vel fallist á að hér er um mikilvægt mál að ræða. Ég er hins vegar ekki sammála því að þarna sé um hættulegt mál að ræða. Þetta er hluti af því samkeppnislandslagi sem verið er að leiða okkur inn í síðan við gengum í hið Evrópska efnahagssvæði sem hefur í stórum dráttum orðið okkur til góðs.“

Árið 2019 er Ísland ekki tengt því evrópska kerfi sem Tómas Ingi gerir þarna að umtalsefni og telur framfaraskref. Ekki stendur heldur til að tengjast því með þriðja orkupakkanum. Hann er hins vegar rökrétt framhald þess frelsis sem Tómas Ingi Olrich bar lof á ræðu sinni.