4.2.2023 10:38

Klofin Samfylking

Innan Samfylkingarinnar er hart deilt milli þeirra sem vilja fylgja Sólveigu Önnu Jónsdóttur og sósíalistunum sem ráða ferðinni í Eflingu og hinna sem telja að fara eigi að lögum.

Innan Samfylkingarinnar er hart deilt milli þeirra sem vilja fylgja Sólveigu Önnu Jónsdóttur og sósíalistunum sem ráða ferðinni í Eflingu og hinna sem telja að fara eigi að lögum og virða miðlunarrétt sáttasemjara ríkisins og leggja miðlunartillögu hans fyrir félagsmenn í Eflingu.

Á öðrum arminum eru fyrrverandi forystumenn í verkalýðshreyfingunni, Ásmundur Stefánsson, fyrrv. forseti ASÍ, og Guðmundur Gunnarsson, fyrrv. formaður Rafiðnaðarsamsbandsins, sem styðja framtak ríkissáttasemjara. Á hinum arminum er Margrét Sigrún Björnsdóttir, fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.

Margrét Sigrún segir á Facebook síðu sinni föstudaginn 3. febrúar að vinur hennar Stefán Ólafsson, fyrrv. prófessor og nýverandi ráðgjafi Eflingar, skori á jafnaðarmenn að styðja Sólveigu Önnu. Hann segi að stjórnmálamenn „sem ættu að styðja hana í nafni jafnaðar- og kvenfrelsisstefnu láta eins og hún sé ýmist ekki til eða að félagsskapur hennar sé þeim ekki sæmandi“. Stefáni „finnst stundum að meint jafnaðarstefna í stjórnmálunum og í háskólaumhverfinu sé meira hugsuð fyrir fínni huta þjóðarinnar“. Þessu vill Stefán breyta og fær stuðning til þess frá Margréti Sigrúnu.

Í athugasemdum við þessa færslu birtist mikil reiði hjá mörgum meðal annars þeim sem eiga um sárt að binda vegna yfirgangs og mannvonsku Sólveigar Önnu á formannsstóli í Eflingu. Þráinn Hallgrímsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Eflingar, segir meðal annars:

„Það líður varla sú vika þar sem ég er ekki hundskammaður og ligg undir svívirðingum frá félögum í Sósíalistaflokknum fyrir það meðal annars af hafa verið félagi í Samfylkingunni. Þó að ég hafi aldrei tengt saman hlutverk mitt í bæjarmálum í Kópavogi og starf mitt innan ASÍ og Eflingar, þá hefur Sólveigu Önnu og félögum hennar orðið tíðrætt um þann spillingarstimpil sem á að þeirra mati að fylgja Samfylkingunni. Það er því meira en lítið sérkennilegt af skora á jafnaðarmenn til fylgis við hana.“

317897A7D82D913B54F7AD2690A76BBB27F6109DEAE2A5B242E8440989811783_1600x900Guðmundur Árni Stefánsson og Kristrún Frostadóttir (mynd; visir/vilhelm).

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, er í barneignarleyfi og verður því ekki krafin um afstöðu í þessu máli.

Samfylkingarmaðurinn Önundur S. Björnsson birti á hinn bóginn lofgrein um varaformann Samfylkingarinnar, Guðmund Árna Stefánsson, á Facebook síðu sinni 3. febrúar og þakkaði honum framgang jafnaðarstefnunnar og þar með sókn Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum að undanförnu.

Í athugasemdum við færsluna var endurkomu Guðmundar Árna líkt við það þegar Konrad Adenauer varð kanslari Þýskalands árið 1949 73 ára að aldri. Önundur vildi frekar líkja honum við Olav Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, meira að segja sjálfur Karla-Magnús var nefndur til mannjöfnuðar.

Nú reynir á hvort Guðmundur Árni getur í fjarveru Kristrúnar sameinað stríðandi fylkingar innan Samfylkingarinnar. – Styður hann við Sólveigu Önnu og baráttuaðferðir sósíalista eða hallast hann að virðingu fyrir umboði ríkissáttasemjara um að leggja það í dóm félagsmanna Eflingar hvert skuli stefnt? Um þetta er tekist af hörku í Samfylkingunni um þessar mundir.