22.11.2021 10:08

Kjörbréfin nálgast

Frá upphafi hefur allt þetta talninga- og kjörbréfaamál verið undarlegt. Víst er að um klúður var að ræða í Borgarnesi. Komast varð til botns í því.

Eftir rannsóknir síðan 4. október stefnir í að lagt verði til við alþingi að lokatölur í kosningunum gildi við útgáfu kjörbréfa. Þar sem lokatölurnar birtust ekki fyrr en talið hafði verið að nýju í NV-kjördæmi að ábendingu landskjörstjórnar hófst mikil rekistefna um úrslitin.

Hönnuð var sú kenning að þeir frambjóðendur sem taldir voru þingmenn í jöfnunarsætum þegar ríkisútvarpið lauk kosningavöku sinni hefðu hlotið einhvern „rétt“ til þingsetu. Klúðursleg framkvæmd yfirkjörstjórnar í NV-kjördæmi á talningu atkvæða var sögð staðfesta þennan „rétt“. Þeir sem náðu kjöri með vísan til lokatalna geri það „á kostnað“ nafngreindra frambjóðenda.

Einn þessara frambjóðenda viðreisnarmaðurinn úr NV-kjördæmi Guðmundur Gunnarsson að ætla að fá „rétt“ sinn staðfestan af Mannréttindadómstólnum í Strassborg. Telja talsmenn málskots þangað að dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að stjórnarskrá Íslands brjóti í bága við mannréttindi af því að alþingi á lokaorðið um útgáfu kjörbréfa. Dómstóllinn hafi ákveðið það í máli vegna kosningasvindls í Belgíu!

Í Morgunblaðinu í dag (22. nóv.) er fréttaskýring um þetta mál og látið eins og þeir jöfnunarþingmenn sem sitja á þingi í samræmi við lokatölurnar þurfi að skoða eigin sannfæringu með sérstökum gleraugum fyrir atkvæðagreiðsluna um kjörbréfin. Fyrirsögnin er: Segir enga skömm að standa með talningu. Alkunna er að frambjóðendur hafa lagst til svefns áður en lokatölur birtust og talið sig þingmenn en síðan vaknað við allt annan veruleika eftir að öll kurl komu til grafar.

941659Spyrja má hvort líta beri á það sem hluta woke-menningarinnar (kveinstafamenningarinnar) í stjórnmálum að skömm felist í því að einn vinni en annar tapi í kosningum. Sýna eigi þeim sérstaka samúð sem eygðu þingsæti áður en talningu lauk en hrepptu það ekki. Enn er alið á villu um að þingmenn séu hugsanlega vanhæfir til að fara að eigin sannfæringu við afgreiðslu kjörbréfanna.

Innan Viðreisn eru skiptar skoðanir í þessu máli. Guðmundur Gunnarsson gengur lengst í kvörtunum sínum. Viðreisnarþingmaðurinn Guðbrandur Einarsson er ekki í vafa um eigin afstöðu. Hann segir í Morgunblaðinu: „Ég ætla ekkert að fela mig eða skammast mín fyrir það. Ég ætla að standa með seinni talningu.“ Flokksbróðir hans Sigmar Guðmundsson er í vafa og boðar að hann sitji hjá nema gögn frá kjörbréfanefnd sannfæri hann um annað.

Frá upphafi hefur allt þetta talninga- og kjörbréfaamál verið undarlegt. Víst er að um klúður var að ræða í Borgarnesi. Komast varð til botns í því. Þurfti þrjár ferðir þingnefndar þangað til þess? Hefði ekki verið nær að fela óvilhöllum þriggja manna hópi að skoða málið og leggja álit fyrir nefndina? Hún tæki síðan afstöðu og kynnti hana alþingi.

Aðferðin við að komast að niðurstöðu um að lokatalning atkvæða skuli gilda gerði þetta mál allt dramatískara en efni þess leyfir. Hafi tilgangurinn verið að skapa þverpólitíska sátt um niðurstöðuna er ólíklegt að það takist miðað við að þrir forystumenn Viðreisnar eru ekki einu sinni samstiga.