3.12.2023 10:42

Kjarnorkuver styrkjast í Dúbaí

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur lagt höfuðáherslu á kjarnorkuver í boðskap sínum á COP28. Hann segir að ekki komi til nauðsynlegra orkuskipta nema að kjarnorkan sé nýtt,

Um þessar mundir eru 84 Íslendingar í ferðum fram og til baka á loftslagsráðstefnu SÞ, COP28, í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti þar ávarp laugardaginn 2. maí og lagði áherslu á nauðsyn þess að ná fram markmiðum Parísarsamningsins frá 2015 um að takmarka hlýnun jarðar við 1,5°C.

„Heimsbyggðin þarf að einblína á hætturnar sem felast í loftslagsbreytingunum. Þessi mikilvægi fundur þarf að senda skýr skilaboð um að við munum leggja enn meira af mörkum til að tryggja framtíð jarðarinnar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Henni verður örugglega að ósk sinni um að látið verður sem skilaboðin frá ráðstefnunni séu skýr. Á hinn bóginn hefur reynslan kennt að skilaboð um loftslagsmál eru eitt. Annað og erfiðara er að fara eftir þeim. Hvort hræðsluboðskapurinn sem birtist í orðum forsætisráðherra knýi á um framkvæmd aðgerða er ólíklegt. Það eina sem dugar er að allir finni á eigin skinni að mál hafi í raun snúist á verri veg.

Miklir jarðskjálftar, landsig og ótti við yfirvofandi eldgos urðu til þess að gefin voru fyrirmæli um að yfirgefa Grindavík að kvöldi 10. nóvember 2023. Að kvöldi laugardagsins 2. desember sagðist Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, telja minni líkur en meiri á að atburðarásin á Reykjanesskaga leiddi af sér eldgos. Hann gerði þó þennan fyrirvara: „En maður er búinn að segja svo margt í þessu ferli.“

Allir sem fylgjast með fréttum af umbrotunum í iðrum jarðar á Reykjanesi og því sem um þau er sagt vita að þar sveiflast mat sérfræðinga á því sem gerist næst frá degi til dags. Þeir geta leitt líkur að einhverju og svörtustu spár eru kvíðvænlegar.

Sé ályktað frá jarðfræðispám til loftslagsspádóma er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að óvissan um hvernig náttúrukraftarnir hagi sér sé mjög mikil. Vissulega kunni hið versta að gerast en um það geti enginn fullyrt.

Við göngum að því sem vísu að maðurinn hafi engin áhrif á það sem gerist í iðrum jarðar, hann geti í besta falli reynt að búa sig undir afleiðingar þess, eins og nú er gert með varnargörðum við Svartsengi. Á hinn bóginn er talið sannað að maðurinn geti haft mótandi áhrif á loftslagsbreytingar. Á því er Parísarsamningurinn reistur og þess vegna koma tugþúsundir manna nú saman í Dúbaí til að staðfesta ásetning um að breyta á þann veg að dragi úr áhrifum á hlýnun jarðar.

Eitt besta ráð mannsins er að framleiða græna orku. Hér á landi standa þeir helst gegn slíkri framleiðslu sem tala hæst um loftslagsvána. Þeir vilja frekar orkuskort og skammtanir sem kalla á dísilvélar til að tryggja verðmætasköpun.

24585744-den-franske-prsident-macron-har-taget-atomkraft-mMacron talar á fundi bandalags um kjarnorkuver.

Frá Dúbaí berast fréttir um að þar vaxi fylgi við kjarnorkuver. Til marks um það megi til dæmis nefna bandalag 22 ríkja, þ. á m. Frakklands, Finnlands og Bandaríkjanna, sem ætli að þrefalda heimsframleiðslugetu kjarnorkuvera fyrir árið 2050.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur lagt höfuðáherslu á kjarnorkuver í boðskap sínum á COP28. Hann segir að ekki komi til nauðsynlegra orkuskipta nema að kjarnorkan sé nýtt. Vind- og sólarorka skapi ekki stöðugleika í orkuframboði. Það hafi ekki verið kynnt nein trúverðug leið að því marki að hætta orkuframleiðslu með kolum. Hlutur jarðefnaeldsneytis minnki ekki nema kjarnorkuverum fjölgi.

Þessar fréttir um kjarnorkuverin frá Dúbaí staðfesta enn hve fráleitt er að tala fjálglega um nauðsyn aðgerða í loftslagsmálum með virkjun endurnýjanlegra orkugjafa en standa með öllum ráðum í vegi fyrir frekari virkjun fallvatna og jarðgufu á Íslandi.