15.2.2023 10:16

Kjarni kvótakerfisins

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, skrifar rúmlega 500 orða grein í Morgunblaðið í dag (15. febrúar) undir fyrirsögninni: Aldrei sátt um fiskveiðistjórnarlög.

Til skilnings á deilumálum er mikils virði að þau séu skýrð á einfaldan og auðskilin hátt. Fiskiveiðistjórnun er eitt þessara mála. Þar hefur verið deilt í 40 ár. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, skrifar rúmlega 500 orða grein í Morgunblaðið í dag (15. febrúar) undir fyrirsögninni: Aldrei sátt um fiskveiðistjórnarlög.

Hér er vitnað til greinarinnar:

1.

„Í þeim lögum [um stjórn fiskveiða frá 20. desember 1983] var ákveðið að veiðiréttur að fiskveiðum í lögsögu Íslendinga yrði bundinn við fiskiskip. Öll fiskiskip á Íslandi hafa skipaskrárnúmer sem Samgöngustofa heldur utan um og hafði Fiskifélag Íslands haldið nákvæma skrá um veiðar allra íslenskra fiskiskipa á Íslandi síðan í byrjun 20. aldar. Veiðirétti (kvóta) var úthlutað til allra íslenskra fiskiskipa í ársbyrjun 1984 á grundvelli veiðireynslu áranna 1981-1983. Þetta var hægt að gera þar sem til var í ársbyrjun 1984 nákvæm skrá um afla allra fiskiskipa á þessum árum, það er árunum 1981 til 1983.“

2.

„Árið 1990 var samþykkt af Alþingi að leyft væri að útgerðarfyrirtæki sem ætti t.d. þrjá báta gæti selt tvo þeirra til niðurrifs eða úreldingar og allur kvótinn færi á einn bát. [...] Ef það voru sjö sjómenn á hverjum bát þá misstu fjórtán sjómenn sína vinnu en þeir sjö sem voru á þeim bát sem ekki var sendur í úreldingu héldu sinni vinnu áfram og gátu veitt kvóta skipanna þriggja og hækkuðu mikið í launum og útgerðin sparaði sér fastan rekstrarkostnað af þeim tveimur bátum sem fóru í úreldingu. Einnig var það leyft með þessum lögum frá árinu 1990 að ef útgerð keypti bát, t.d. á 100 m.kr. með kvóta en án áhafnar, þá gat útgerðin í framhaldi selt bátinn til úreldingar á um það bil 20% af kaupverði. Mismunurinn sem var 80% af kaupverði bátsins (80 m.kr. sem er kallaður veiðiréttur í dag) var færður sem kostnaður í bókhaldi útgerðarinnar.“

3.

Ríkisskattstjóri í nafni ríkisins sagði að kvóti/veiðiréttur „væri eign en ekki kostnaður og vildi banna útgerðinni að bókfæra þennan kvóta (veiðirétt) sem kostnað. Útgerðin sagði aftur á móti að þetta væri ekki eign þar sem þetta væri veiðiréttur að ákveðnu magni fisks í íslenskri fiskveiðilögsögu og ekki eign í skilningi íslenskra laga. Ríkisskattstjóri og fjármálaráðherra á þessum tíma stefndu útgerðinni fyrir dómstólum og var niðurstaðan sú í Hæstarétti árið 1993 að útgerðinni væri skylt að færa veiðiréttinn (aflahlutdeild/​kvótann) sem eign í efnahagsreikningi. Síðan hnykkti Alþingi Íslendinga endanlega á þessu ákvæði árið 1997 þar sem það var bannað að afskrifa veiðirétt í ársreikningum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Í dag er þessi veiðiréttur eignfærður í öllum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og er þeirra helsta eign.“

Af þessu dregur Guðmundur þá ályktun að aldrei verði sátt um lög um stjórn fiskveiða. Eina sem hægt sé að gera núna sé að tryggja að lögin „endurspegli arðsemi og skynsemi fyrir íslenska þjóð. Deilumálið er skipting arðseminnar“.

1093945_1676456139356Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims,

Hér er nýtt dæmi um arðsemi fiskveiðistjórnunarkerfisins:

Alls voru fluttar út þorskafurðir fyrir rúman 141 milljarð kr. árið 2022 en fyrir rúma 132 milljarða árið 2021, reiknað á gengi hvors árs, samt dróst útflutningur í tonnum talið saman um tæp 10%, úr rúmum 141 þúsund tonnum í tæp 128 þúsund tonn. Verðmæti hvers kílós, hvort sem miðað er við afla eða útflutning, var því ríflega fimmtungi hærra árið 2022 en árið 2021, mælt í erlendri mynt.

Í stað þess að gildi stjórnkerfisins sé viðurkennt hafa niðurrifsraddir hljómgrunn og flytja róginn um einstök arðsöm fyrirtæki til útlanda til að koma spillingarstimpli á land og þjóð.