17.5.2023 9:31

Kjarni evrópskra gilda

Norski forsætisráðherrann segir réttilega að Evrópuráðið sé dálítið í skugga ESB og NATO en þar sé þó að finna kjarna þeirra gilda sem séu í mestum metum í Evrópu.

Óvísindaleg athugun á vefsíðum nokkurra fjölmiðla nú á öðrum degi leiðtogafundar Evrópuráðsins í Hörpu bendir ekki til þess að fyrri dagurinn hafi ratað inn í heimsfréttirnar. Hvort ályktun fundarins sem birt verður í dag (17. maí) verður til þess að kveikja áhuga fjölmiðla utan Íslands á honum kemur í ljós.

Ríkissjónvarpið var með líflega samantekt í fréttatíma að kvöldi 16. maí. Brugðið var upp mynd af því sem gerðist í rokinu og rigningunni. Þá mátti á vefsíðum sjá beint ræður á setningarfundinum á sviðinu í Hörpu sem myndaði glæsilega umgjörð um formenn sendinefndanna.

Eftir setningarfundinn var tekin „fjölskyldumynd“ af hópnum á pallinum og eru þær fremst á myndinni fyrir miðju Katrín Jakobsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir en við hliðina á henni er Hollendingurinn Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins (sem fréttastofa RÚV kallar ranglega þingmannanefnd Evrópuráðsins).

Breska Sky sjónvarpið sýndi beint frá Eldborginni í Hörpu þegar Rishi Sunak, forsætisráðherra Breta, flutti ræðu sína. Hann flaug síðan fljótt heim til London aftur að henni lokinni.

Þá var sagt að Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, hefði hraðað sér heim eftir að „fjölskyldumyndin“ var tekin enda er þjóðhátíðardagur Norðmanna í dag og jafnan mikið um dýrðir um landið allt.

GtS6Z2y8BSblzRcCFj9msws2Pb76f_5HC8t0G1Ac9O2gJonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, nýtur heita pottsins í Sundhöllinni (mynd:nrk.no).

Á vefsíðu norska ríkisútvarpsins NRK má lesa langa frétt um komu norska forsætisráðherrans til Reykjavíkur í gær undir fyrirsögninni: Elsker „heitur pottur“ på topmøtet. Þar birtast margar myndir af Jonas Gahr Støre þar sem hann nýtur hvíldar í heitum potti Sundhallarinnar og segir fréttamaðurinn að ráðherrann reyni alltaf finna tíma til að fara í pottinn komi hann til Íslands.

Norski forsætisráðherrann segir réttilega að Evrópuráðið sé dálítið í skugga ESB og NATO en þar sé þó að finna kjarna þeirra gilda sem séu í mestum metum í Evrópu. Það segi mikið um hollustu við þau að tekist hafi að kalla næstum alla ríkisoddvita í Evrópu saman í einn sólarhring, það sé mikilvægt sögulegt augnablik.

Í viðtalinu segir forsætisráðherrann að hann muni ekki beita sér fyrir aðild Noregs að ESB á meðan hann gegni embætti sínu. Norðmenn séu í kjörstöðu gagnvart ESB með aðild sinni að EES-samstarfinu og hann sjái enga ástæðu til að sundra þjóðinni með því að hefja enn einu sinni deilur um ESB-aðild.

Skynsemi af þessu tagi ættu þeir að sýna sem nú leitast við að afvegaleiða umræður um stöðu okkar Íslendinga í samskiptum við ESB hvort heldur með tali um ESB-aðild eða slit á EES-samstarfinu.

Í báðum tilvikum er stuðst við haldlaus rök. Nú síðast skipar Heimssýn sér gegn EES-aðildinni með því að vilja kasta bókun 35 við EES-samninginn fyrir róða. Allt vegna rangtúlkunar á bókuninni til að koma illu af stað.

Í tengslum við leiðtogafundinn hittust Katrín Jakobsdóttir og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og fundu lausn á ágreiningsefni um losunarreglur flugvéla vegna loftslagsbreytinga