2.2.2024 9:33

Kínverskt vor í febrúar

Ástæða er til að minna á að tilgangur þessarar vorhátíðar kínverska sendiráðsins hér á landi er hvorki að efla menningar- né viðskiptatengsl.

Kínversk stjórnvöld hafa greinilega ákveðið að sýna Íslendingum á sér hlið menningar og viðskipta í upphafi árs 2024. Um það vitnar viðtal við kínverska sendiherrann á Íslandi í ViðskiptaMogga á dögunum í aðdraganda sérstakrar kínverskrar vorhátíðar sem nú stendur. Hún hófst með kínverskum sendiráðsdegi sunnudaginn 28. janúar en þá var auglýst opið hús í sendiráðinu.

Þriðjudaginn 30. janúar voru gestum veittar óvæntar gjafir á öllum kínverskum veitingastöðum. Í gær (1. febrúar) var ókeypis aðgangur að Kínasafni Unnar í tilefni af safnadeginum. Þá bauð H.E. He Rulong sendiherra (H.E: His Excellency, hans hágöfgi) þeim í síðdegiskaffi sem skráðu sig í gegnum Facebook-síðu kínverska sendiráðsins. Laugardaginn 3. febrúar er handverksdagur og unnt að búa til pappírsblóm í borgarbókasafninu Spönginni. Endapunkturinn er síðan sunnudaginn 4. febrúar þegar efnt verður til sýningar kínversku Wu-óperunnar í Hörpu.

Fyrir þessu öllu standa kínverska sendiráðið, Íslensk kínverska menningarráðið, Íslensk kínverska viðskiptaráðið og Samtök Kínverja á Íslandi segir í auglýsingunni.

Screenshot-2024-02-02-at-09.27.53

Þess er ekki getið í auglýsingunni að föstudaginn 2. febrúar riti Guðmundur Ingason, framkvæmdastjóri G. Ingason hf. og stjórnarmaður í Íslensk-kínverska viðskiptaráðinu, lofgrein um þann sem hann lýsir sem upphafsmanni blómlegra viðskipta Íslands og Kína, Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra og núverandi forvígismann í innflutningi stórra rafknúinna kínverskra ökutækja til Evrópu.

Guðmundur vitnar í endurminningabók Össurar um árið 2012 og frásögn hans af því hvernig honum tókst þá að fá háttsetta kínverska embættismenn til að ljúka gerð tvíhliða viðskiptasamnings við Kína og segir Guðmundur:

„Össur fór fyrir þessu sem utanríkisráðherra Íslands og sýndi mikla snerpu, hyggindi og nokkrar skákfléttur. Forsetinn þá, Ólafur Ragnar Grímsson, sem hafði einlægan áhuga á samskiptum okkar við Kína, hrósaði honum og taldi að fríverslunarsamningurinn væri eitt af merkustu verkum hans í utanríkisráðuneytinu.“

Skjallbandalag þeirra Össurar og Ólafs Ragnars hefur ekki farið leynt frekar en áhugi þeirra á nánum samskiptum Íslands og Kína. Fyrir utan að vekja athygli á snilli Össurar ber Guðmundur Ingason lof á viðskiptasamninginn.

Ástæða er til að minna á að tilgangur þessarar vorhátíðar kínverska sendiráðsins hér á landi er hvorki að efla menningar- né viðskiptatengsl heldur að nota þau sem tæki til að helga sér reit á taflborði alþjóðastjórnmála sem því miður taka á sig æ grimmdarlegri svip með sífellt meiri hervæðingu.

Kínversk stjórnvöld sækjast eftir meiri ítökum á norðurslóðum og stríðsrekstur Rússa í Úkraínu hefur opnað Kínverjum ný tækifæri til auðlindanýtingar í og við Norður-Íshaf.

Sé það sem að ofan er lýst ekki skoðað í þessu stóra samhengi ræður mikil grunnhyggni eða gróðahyggja ferð. Það eru ekki heppilegar stoðir í samskiptum við einræðisríki með útþensludrauma.