1.10.2019 10:14

Kínverskir kommúnistar fagna

Afmælisveislan í Peking er fyrst og síðast lofsöngur um kínverska kommúnistaflokkinn. Það gefur henni falskan tón eigi hún að einkennast af gleði.

Líklega hefur aldrei verið efnt stærri hersýningar en á Torgi hins himneska friðar í dag (1. október) þegar Kínverjar minnast þess að 70 ár eru liðin frá því að kommúnistar brutust til valda í landinu. Vikum saman hefur hluti miðborgar Peking verið lokaður öðrum en þeim sem taka þátt í þessari miklu sýningu á mætti Kína. Alls voru 15.000 hermenn til sýnis á torginu, 160 herflugvélar tóku þátt í afmælinu og 580 bryndrekar. Lítið fór fyrir almenningi enda var gert ráð fyrir að fólk léti sér nægja fylgjast með þaulæfðu sýningu í sjónvarpi.

Í alþjóðlegum sjónvarpsstöðvum skiptast á myndir af skrautsýningunni í Peking og brynvörðum bílum óeirðalögreglu í Hong Kong þar sem yfirvöld reyna að brjóta lýðræðishreyfingu ungs fólks og annarra á bak aftur. Átökin í Hong Kong sem staðið hafa vikum saman endurspegla spennu innan Kína sem er í hróplegu ósamræmi við opinberu glansmyndina. Fullyrðingarnar um eitt ríki, tvö kerfi standa á brauðfótum.

XVM5c5c1426-e393-11e9-9fb9-5b5d1c3f8ed4Fyrirmælin til kínversku þjóðarinnar um að taka aðeins þátt í hátíðarhöldum flokksins með því að horfa á þau í sjónvarpi eru til marks um heljartök leiðtoga kommúnista á þjóðinni. Þeir vilja aðeins að horft sé á það sem þeim er að skapi. Þeir kunna að reka járnhnefa sinn af öllu afli í andlit mótmælenda í Hong Kong fyrr en síðar nú eftir afmælisveisluna. Minningin um fjöldamorð flokksins á Torgi hins himneska friðar í Peking árið 1989 er áminning um að flokkurinn svífst einskis telji hann að sér vegið.

Á fyrstu áratugunum eftir byltinguna leiddi Maó þjóðina úr einni hörmung í aðra í nafni kommúnismans. „Stóra stökkið“ á sjötta áratugnum og menningarbyltingin á sjöunda áratugnum kostuðu tugi milljóna manna lífið.

Fyrir 40 árum var breytt um stefnu, flokkurinn leyfði kapítalisma í kommúnísku stjórnkerfi eins flokks. Hagvöxtur hefur frá 1979 verið að meðaltali 9,5% á ári. Fyrir 40 árum bjuggu 80% Kínverja við mikla örbirgð en meirihluti þeirra hefur nú rétt úr kútnum fjárhagslega.

Kínverska þjóðfélagsbyltingin kostar einnig sitt. Kínverjar menga andrúmsloftið mest allra þjóða heims – 28% útblásturs í heiminum kemur frá þeim. Þetta hefur haft áhrif á þróun loftslagsmála um heim allan. Vegna afmælisdagsins var mengandi verksmiðjum við Peking lokað í von um að birti í borginni. Sjónvarpsmyndir sýna þó mengunardrungann.

Til marks um ofurstjórn kínverska kommúnistaflokksins má nefna að blaðamenn allra kínverskra fjölmiðla verða að gangast undir próf til að sanna þekkingu sína á hugsunum og kenningum sem Xi Jinping, forseti Kína, boðar. Það er leyfilegt að falla einu sinni á prófinu. Erlendir blaðamenn þurfa ekki að taka prófið en þeir eiga sífellt erfiðara með að fá dvalarleyfi sín endurnýjuð. Samtökin Reporters Without Borders, Blaðamenn án landamæra, setja Kína í 177 sæti af 180 ríkjum á listanum, aðeins Erítrea, Norður-Kórea og Turkmenistan eru neðar á listanum.

Afmælisveislan í Peking er fyrst og síðast lofsöngur um kínverska kommúnistaflokkinn. Það gefur henni falskan tón eigi hún að einkennast af gleði.