10.5.2021 9:38

Kínverskar bannfæringar

Þetta dæmi um hvernig vegið er að málfrelsi heimsfrægs kínversks einstaklings er nefnt hér í samhengi við ákvörðun kínverskra stjórnvalda að setja Jónas Haraldsson lögmann á svartan lista.

Í leiðtogatíð Xi Jinping í Kína frá 2012 hefur verið beitt harðari úrræðum innan Kína til að halda þjóðinni undir járnhæl kommúnistaflokksins og valdaklíku hans og gagnvart öllum utan Kína sem gagnrýna stjórnarhætti í landinu.

Fyrir nokkrum vikum fagnaði kínverski kvikmyndaleikstjórinn Chloé Zhao sigri myndar sinnar Nomadland. Hún fékk Óskars-verðlaun sem besta myndin auk þess sem Zhao varð fyrst hörundslitaðra kvenna valin besti leikstjórinn í 93 ára sögu verðlaunanna. Aðeins ein kona, Kathryn Bigelow, hafði áður verið valin besti leikstjórinn, árið 2010 fyrir myndina The Hurt Locker.

Zhao fékk fyrr á árinu Golden Globe-verðlaunin sem besti leikstjórinn. Þá fögnuðu kínverskir ríkisfjölmiðar og sögðu hana „stolt Kína“. Skömmu síðar var grafið upp viðtal við Zhao sem birtist árið 2013 í bandaríska tímaritinu Filmmaker Magazine þar sem Zhao sagði frá uppvexti sínum og lýsti Kína sem „stað með lygar í hverju horni“. Þá voru frásagnir af Zhao máðar af kínverskum samfélagsmiðlum og hún sætti vaxandi gagnrýni þeirra sem létu í sér heyra þar.

Á vefsíðu Filmmaker Magazine segir að upphaflega viðtalið við Zhao hafi verið stytt og öllu sleppt sem hún segi um uppvaxtarár sín í Kína. Tveir stærstu ríkisfjölmiðlar Kína CCTV og Xinhua sögðu þó ekki frá Óskars-verðlaununum til Zhao og opinber þögn ríkir um hana í ættlandi hennar.

C1_3957719Chloé Zhao með tvær Óskars-verðlaunastyttur fyrir Nomadland. Opinber þögn er um árangur hennar í Kína.

Þetta dæmi um hvernig vegið er að málfrelsi heimsfrægs kínversks einstaklings er nefnt hér í samhengi við ákvörðun kínverskra stjórnvalda að setja Jónas Haraldsson lögmann á svartan lista fyrir að gagnrýna kínversk stjórnvöld í greinum í Morgunblaðinu. Í frétt blaðsins föstudaginn 7. maí kom síðan fram að líta ætti á bannfæringu Jónasar sem viðvörun til íslenskra stjórnvalda og raunar allra Íslendinga. Í upphafi fréttarinnar segir:

„Íslenskum stjórnvöldum ber að líta á refsiaðgerðir kínverskra stjórnvalda gegn almennum borgara hér á landi sem viðvörun um að gripið gæti verið til harðari aðgerða í framtíðinni. Þetta kom fram í máli Sigríðar Á. Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns utanríkismálanefndar, í umræðum á Alþingi í gær [6. maí] um skýrslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um utanríkis- og alþjóðamál.“

Í blaðinu er haft eftir Sigríði:

„Það olli mér miklum vonbrigðum að heyra kínverska sendiherrann lýsa því að það væri rétt af íslenskum stjórnvöldum að líta á þessa aðgerð sem viðvörun – sem viðvörun til framtíðar, ef það yrði gripið til harðari aðgerða gagnvart þá væntanlega fleirum en almennum borgurum, ef Ísland ásamt öðrum ríkjum hygðist grípa til refsiaðgerða eða mótmæla við mannréttindabrot á öðrum svæðum en í Xinjiang-héraði [þar sem Úígúrar eru ofsóttir].“

Rússar töldu á dögunum að með eigin rangfærslum hefðu þeir heimild til að setja ofan í við Guðlaug Þór Þórðarson vegna almennra ummæla hans um kjarnorkuvopn. Nú vilja Kínverjar að tekið sé tillit til ritskoðunaráráttu þeirra í umræðum á Íslandi.

Þetta er til marks um aukna hörku stjórnvalda ríkjanna í samskiptum við aðra og kallar á gagnrýnna viðhorf í þeirra garð í stað undirgefni.