30.8.2020 10:50

Kínversk skilyrði friðarverðlauna

Eftir að friðarverðlaun Nóbels fóru til Liu Xiaobo árið 2010 lokuðu ráðamenn í Peking umsvifalaust á innflutning á sjávarafurðum til Kína frá Noregi.

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, var í Osló fimmtudaginn 27. ágúst. Blaðamaður Aftenposten spurði hann hvernig kínversk stjórnvöld myndu taka á málum ef ákveðið yrði að sæma einhvern fulltrúa lýðræðissinna friðarverðlaunum Nóbels.

Wang Yi svaraði:

„Við viljum ekki sjá neina tilraun til að nota friðarverðlaun Nóbels í pólitískum tilgangi. Í þátíð, nútíð og í framtíð mun Kína ákveðið hafna öllum tilraunum til að nota friðarverðlaun Nóbels til að blanda sér í innri málefni Kína. Þessi afstaða Kína er bjargföst,“ sagði Wang Yi.

Tillaga um að veita lýðræðissinnum í Hong Kong friðarverðlaunin liggur fyrir frá Guri Melby, þingmanni Venstre, sem nú er ráðherra í Noregi.

Kínverska andófsmanninum Liu Xiaobo voru veitt friðarverðlaun Nóbels 2010. Við það súrnaði stjórnmálasamband Noregs og Kína. Umdeildur samningur um að koma sambandinu í eðlilegt horf var gerður 2016, þar skuldbinda Norðmenn sig til að gera ekkert sem grafi undan meginhagsmunum Kínverja.

NTB_barTC6LSO_M-kopi-2048x1365Wang Yi utanríkisráðherra, Erna Solberg forsætisráðherra og Irene Eriksen Sørede utanríkisráðherra í ráðherrabústaðnum í Osló 27. ágúst 2020.

Þegar kínverski utanríkisráðherrann kom að norska ráðherrabústaðnum til fundar við Ernu Solberg forsætisráðherra og Ine Eriksen Sørede utanríkisráðherra, sem báðar eru í Hægriflokknum, voru um 100 mótmælendur við húsið til að gagnrýna stefnu kínverskra stjórnvalda í mannréttindamálum. Þau halda rúmlega milljón uigurum og öðrum múslimum í endurhæfingarbúðum í Xinjiang-héraði og hafa sett öryggislög í Hong Kong sem beitt er gegn þeim sem vilja standa vörð um sjálfstæði borgríkisins.

Norski utanríkisráðherrann sagði að hún hefði rætt mannréttindamál við Wang. Í norskum fréttum kom ekkert fram um viðbrögð hans en frásagnir annarra sem hreyft hafa mannréttindamálum við kínverska ráðamenn bera með sér að þeir bregðist illa við slíkri gagnrýni og saki viðmælendur sína um að vilja splundra kínverska ríkinu.

Eftir að friðarverðlaun Nóbels fóru til Liu Xiaobo árið 2010 lokuðu ráðamenn í Peking umsvifalaust á innflutning á sjávarafurðum til Kína frá Noregi sem varð mikið áfall fyrir norskt fiskeldi. Nú er unnið að gerð fríverslunarsamnings milli landanna þar sem norskar sjávarafurðir eru þungamiðja af hálfu Norðmanna.

Heimsókn Wangs til Oslóar leiðir í ljós að friðarverðlaun Nóbels verða framvegis ekki veitt í óþökk kínverskra stjórnvalda nema Norðmenn búi sig jafnframt undir innflutningsbann Kínverja. Fríverslunarsamningur Norðmanna og Kínverja verður keyptur þessu verði.

Nýlega voru sýndir þættir í ríkissjónvarpinu um verðið sem Danir greiddu fyrir að fá kínverska panda-birni að láni í dýragarðinn í Kaupmannahöfn – panda-diplómatía kallast þau tök kínverskra stjórnvalda.

Sænsk stjórnvöld eiga í útistöðum við kínversk eftir að útsendarar þeirra rændu sænskum ríkisborgara, Gui Minhai, í Thailandi árið 2015. Hann er rithöfundur og bóksali í Hong Kong sem í febrúar í ár var dæmdur í 10 ára fangelsi í Kína fyrir ólöglega dreifingu á trúnaðarupplýsingum erlendis. Hann birti meðal annars frásagnir af einkalífi kínverskra ráðamanna. Sænsk stjórnvöld mótmæla því að kínversk stjórnvöld hafa sænskan ríkisborgararétt að engu í þessu máli.

Haldi menn að Kínverjar fari öðrum höndum um íslensk stjórnvöld en þau sem að ofan er lýst eru þeir glámskyggnir og óvarkárir.