10.11.2021 9:20

Kína: Xi á bekk með Maó

Xi Jinping, forseti Kína og alvaldur kommúnistaflokksins, vinnur markvisst að því að verða á næsta ári settur á sama stall og Maó Zedong formaður meðal flokks og þjóðar.

Xi Jinping, forseti Kína og alvaldur kommúnistaflokksins, vinnur markvisst að því að verða á næsta ári settur á sama stall og Maó Zedong formaður meðal flokks og þjóðar.

Nú í vikunni situr miðstjórn flokksins á fundi og er þess vænst að hún samþykki 531 bls. stefnuskjal um „stórkostleg afreksverk“ flokksins. Með endurritun sögunnar vill Xi tryggja að á flokksþinginu árið 2022 verði samþykkt að hverfa frá ákvörðun sem kennd er við Deng Xiaoping og stefnuskjal hans frá árinu 1981 um að flokksforingi megi ekki sitja nema tvö fimm ára tímabil við völd. Xi komst ril valda 2012 og vill sitja eins lengi og honum hentar.

2021-11-10T050854Z_2_LYNXMPEHA908K_RTROPTP_3_USA-CHINA-TAIWANXi Jinping, forseti Kína og foringi kommúnistaflokksins.

Olivia Cheung við University of London’s School of Oriental and African Studies (SOAS) segir að stefnuskjalið sé „gífurlega mikilvægt“. Þetta sé í þriðja sinn i 100 ára sögu flokksins sem slíkt skjal sé lagt fram til umræðu og samþykktar. Þegar það var gert 1945 lagði samþykktin grunn að valdaferli Maós. Skjal Dengs frá 1981 mótaði efnahagsbyltinguna með innleiðingu kapítalisma undir forsjá og alræði kommúnistaflokksins.

Maó réð öllu sem hann vildi og lét sig mannslíf engu skipta við framkvæmd stefnu sinnar, talið er að „stóra framfarastökkið“ á sjöunda áratugnum hafi kostað um 40 milljónir mannslífa. Menningarbylting Maós 1966 til 1976 var blóðug, niðurlægjandi og gróf undan efnahag þjóðarinnar. Með vísan til þeirra hörmunga tókst Deng að fá umboð til að endurskipuleggja efnahags- og stjórnkerfið.

Nú vill Xi skipa sér sess með Maó og Deng og hallar sér frekar að þeim fyrrnefnda. Vekur það ótta í huga þeirra sem muna grimmdina sem einkenndi Maó-tímann. Með því að setja reglu um setu flokksforingja í aðeins tvö kjörtímabil vildi Deng forða flokknum frá að lenda að nýju í höndum einhvers sem stofnaði til persónudýrkunar um sig í anda Maós.

Bent er á að Xi leggi í boðskap sínum áherslu á „sameiginlega hagsæld“ þjóðarinnar. Skoða megi þetta hugtak sem fráhvarf frá stefnu Dengs og áherslunni á efnahagslegar framfarir og hagvöxt hvaða verði sem hann er keyptur og þótt hann auki á ójöfnuð. Með „sameiginlegri hagsæld“ sé markmiðið að hafa stjórn á hagvexti og tryggja jafnari tekjudreifingu. Í stefnuskjalinu er sagan skrifuð á þann veg að þetta hafi ætíð verið höfuðmarkmið flokksins og Xi Jinping sé best treystandi til að tryggja að svo verði áfram.

Skömmu eftir að Xi komst til valda tók hann að vara við „sagnfræðilegri tómhyggju (e. nihilism)“ sem hann taldi eina af þremur helstu hættum sem ógnuðu flokknum og valdi hans. Með tómhyggjunni væri reynt að hnekkja opinberri frásögn (e. narrative) um mikilvæga sögulega atburði. Maó og Deng létu skrá söguna að eigin höfði en töluðu aldrei um nauðsyn þess að sagnaritun félli að hagsmunum flokksins af jafnmiklum þunga og Xi.

Þrjár stikur má nota við túlkun frétta af því sem gerist frá 8. til 11. nóvember 2021 á bak við luktar dyr miðstjórnar kínverska kommúnistaflokksins: brotthvarf frá tveggja kjörtíma reglunni, „sameiginleg hagsæld“ og sagan endurskrifuð. Gerist þetta vex persónudýrkunin á Xi.