10.2.2018 11:24

Starfsstöð kerfis í stað skóla

Margt bendir til að kerfissjónarmið ráði meiru en góðu hófi gegnir. Opinber miðlun upplýsinga um árangur í skólastarfi er minni nú en var fyrir 20 árum af því að kerfið hefur lagst gegn slíkri miðlun.

Hér var í gær fjallað um falleinkunn íslenska skólakerfisins í nýrri norrænni skýrslu. Viðbrögðin við pistlinum sýna að þörf er að ræða þróun skólakerfisins á opnari hátt en gert hefur verið. Í sögu mannkyns er uppeldisfræði ung  fræðigrein og stóð skortur á henni eða fimm ára kennaranámi menntun ekki fyrir þrifum á árum áður. Markmiðið með að færa grunnskólann frá ríki til sveitarfélaga fyrir 22 árum var að færa hann nær foreldrum og veita þeim ríkan rétt til að fylgjast með skólastarfinu. Hefur það tekist? Margt bendir til að kerfissjónarmið ráði meiru en góðu hófi gegnir. Opinber miðlun upplýsinga um árangur í skólastarfi er minni nú en var fyrir 20 árum af því að kerfið hefur lagst gegn slíkri miðlun. 

Bréfritari benti mér á að grunnskólakennurum væri skylt „að sinna alls kyns verkefnum, teymum  og ferlum samkvæmt forskriftum einkafyrirtækisins Mentor“. Væri merkilegt að fólk sem hataðist við einkarekstur á öllum sviðum væri í viðskiptum við þetta fyrirtæki. Kennarar ættu að „innleiða lotur samkvæmt Mentor“.  

Í Reykjavík færi verulegur tími kennara í að sinna „stöðugum og sívaxandi afskiptum Skóla- og fræðslusviðs borgarinnar“ af innra starfi skóla. Vegna þessa magnaðist óánægja meðal kennara sem kysu að vinna annars staðar. Í anda alls þessa væri ekki lengur talað um „skóla“  innan kerfisins heldur „starfsstöðvar“.

Á Facebook urðu einnig umræður. Þar sagði Einar Valgeir Arason: 

„Ég var í skóla hér á landi til 18 ára aldurs, eftir það erlendis, hef kennt á grunnskóla- og framhaldsstigi hér, verið skólastjóri grunnskóla, kennt smávegis og unnið nokkuð á framhaldsskólastigi erlendis, átt og á börn og barnabörn í íslenskum og erlendum skólum, þekki marga sem hafa svipaðan bakgrunn. Það er svo gargandi augljóst hvar stórir áhrifaþættir liggja sem gerir menntakerfi okkar slappt að mörgu, ekki öllu, leyti. Þar eru kennarar ekki stærsta málið, ekki peningurinn. Kerfið okkar reiknar ekki með aga og vinnusemi, allir leka í gegn, engar, næstum engar, lágmarkseinkunnir til að ná (4,5 til að ná fagi í framhaldsskóla, eru menn að grínast!??). KERFIÐ hefur brugðist í áratugi. Skóli hér er pössun og viðvera fyrst og fremst - þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir fjölda kennara. Og svo sýnir það sig að nemendur með metnað, stuðning og rétt viðhorf heima standa sig stórvel - fólk frá okkur flýgur inn í topp skóla. En stór hluti fær aldrei að finna að hann er fær um að gera miklu betur, því kerfið ætlast ekki til þess. - Nei, nú er komið nóg í bili! En mikið þyrfti að fá fólk eins og mig, sem skilur þetta til hlítar, að ræða þetta á réttum vettvangi og fá kerfisfólkið til að hlusta, og skipta því svo út, sumu, flestu?“ 

Skólakerfi þar sem ekki er lögð rækt við „aga og vinnusemi“ er dæmt til að fá falleinkunn. Hvernig væri að minnka áhersluna á „kerfið“ og leyfa skólanum að dafna?