Kerfiskarlarnir sjá um sína
Við teljum okkur trú um að við séum mjög nútímavætt og opið samfélag en kerfislegar brotalamirnar eru fjölmargar.
Íslenskt samfélag glímir við innbyggðan kerfisvanda sem veldur dýrum vandræðum á mörgum sviðum. Við teljum okkur trú um að við séum mjög nútímavætt og opið samfélag en kerfislegar brotalamirnar eru fjölmargar.
Í helgarblaði Morgunblaðsins sem kom út í dag (25. mars) má finna margt sem snertir þennan innbyggða kerfisvanda. Hér skulu nefnd þrjú dæmi:
1. J. Ingimar Hansson rekstrarverkfræðingur baf nýlega út ádeilubók á íslenska dómskerfið og alþingi, Réttlæti hins sterka. Hann segir í samtali í sunnudagsblaðinu:
„Út frá öllum prinsippum sem ég hef lært á langri lífsleið þá er þetta kerfi út úr kú, svo að ég tali nú bara íslensku. Þegar ég kom fyrst inn í dómsal þá leið mér eins og að ég væri kominn aftur til ársins 1970, þegar ég var að byrja minn starfsferil. Dómskerfið er ekki í neinum takti við samfélagið eins og það er í dag. Enda er það ein af niðurstöðum bókarinnar að meðferð dómsmála sé úrelt þar sem hún byggist á aðferðum og hugsun frá því löngu fyrir tölvuöld.“
2. Steinunn Helga Snæland-Bergendal, öryrki búsett í Noregi, skrifar opið bréf til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna vefsíðunnar Ísland.is. Henni er lýst sem einum stað „fyrir einstaklinga og lögaðila til að nálgast gögn og sækja sér þjónustu þvert á ríkið“. Bréfritari segir aðgangskröfur að síðunni sífellt að breytast og nú gerist það enn. Með litlum fyrirvara sé notendum kynnt ný „skotheld lausn fyrir auðkenni og aðgang“. Þegar Steinunn Helga spurði hvernig hún gæti sótt um aðgang frá Noregi var svarið að hún yrði að koma til Íslands og framvísa vegabréfi! Opna bréfið sýnir að kerfiskarlar en ekki kerfisfræðingar vinna að þessari uppfærslu og þeir viti ekki einu sinni af sendiráði Íslands í Osló, treysti þeir sér ekki til að opna íslenskum ríkisborgunum í útlöndum aðgang að Ísland.is án þess að íslenskur embættismaður horfist í augu við viðkomandi og handleiki vegabréf hans.
3. Áratugum saman hefur verið glímt við að tryggja útlendingum á Íslandi kennslu í íslensku. Nú hefur þessi kennsla hlotið stað í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu innan stjórnarráðsins! Einkareknir skólar á þessu sviði sækja um opinbera styrki í sjóðinn Íslenskukennsla fyrir útlendinga. Gígja Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri tungumálaskólans Dósaverksmiðjunnar, segir óskiljanlegt hvernig úthlutað sé úr sjóðnum. Í fyrra voru 2.700 nemendur í Dósaverksmiðjunni en hún fékk styrk fyrir 280. Henni er síðan stillt upp við vegg geri hún athugasemd og spurð: „Hvaða skóli viltu að fái minna svo þú fáir meira?“ Kerfislegra verður það ekki.
Þá er rætt við Linu Hallberg, svissneskan tannlækni, sem flutti til Íslands 2016. Til að læra íslensku fór hún að lokum í þriggja ára háskólanám og talar nú málið reiprennandi. Hún segir ekki tungumálið heldur kerfið við kennslu þess erfiðustu hindrunina við að læra íslensku:
„Það er alveg galið að maður þurfi að fara í háskólanám til að læra íslensku. Margir segja að það sé dýrt að kenna útlendingum íslensku en það er enn dýrara að senda mig í háskóla en á námskeið. Kerfið er vandamálið.“ segir Lina Hallberg.