29.3.2025 10:31

Kerfið lokar hveitimyllu

Stórundarlegt er að í fimm ár hafi Kornax glímt við að fá starfsleyfi á Grundartanga án þess að opinberir aðilar regluverksins hafi stillt saman strengi sína og ráðherrann bendi svo bara á kæruleiðir.

Nú hefur einu hveitimyllu landsins verið lokað. Faxaflóhafnir sögðu upp leiguhúsnæði sem Kornax hefur haft við Sundabraut. Var það gert af öryggisástæðum, húsin eigi að rífa. Kornax sem rak hveitimylluna í 40 ár leitaði í fimm ár leiða til að fá starfsleyfi á Grundartanga. Heilbrigðisnefnd Vesturlands neitaði að veita leyfið. Kornax bregst með því að flytja allt hveiti til landsins fullunnið.

Annars staðar á Norðurlöndum er gert ráð fyrir 6-12 mánaða öryggislager af hveiti en á Íslandi hafa verið til birgðir í 3-4 mánuði. Við lokun Kornax-verksmiðjunnar verða birgðir aðeins til eins mánaðar. Innflutningur verður eingöngu í sekkjum.

Bb8794b3-514d-4201-9abe-895ae255f718Úr hveitimyllu Kornax sem nú hefur verið lokað (mynd: mbl.is/Karítas).

Þegar lá fyrir í hvað stefndi, 20. janúar 2025, ræddi Morgunblaðið við Helga Eyleif Þorvaldsson, aðjúnkt við brautarstjórn í búfræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og einn höfunda kornskýrslunnar Bleikir akrar, sem styrkt var af matvælaráðuneytinu. Hann sagði:

„Þetta er ótrúlega sorglegt. Hér er einkaaðili sem sýnir áhuga á að byggja nýja hveitiverksmiðju á mjög heppilegum stað en opinber eftirlitsstofnun ber fyrir sig Evróputilskipun sem líklega á að breyta.“

Þessi opinbera stofnun er heilbrigðiseftirlit Vesturlands. Í fréttum um þetta mál hefur verið sagt frá því að hefði Matvælastofnun verið leyfisveitandi hefði fengist starfsleyfi.

Þarna er greinilega ágreiningur eða kannski rígur milli opinberra eftirlitsstofnana. Önnur heyrir undir ríkið en hin starfar á vegum sveitarfélaga. Athuganir sýna að heilbrigðiseftirlit túlka regluverkið ekki alltaf á sama hátt. Heilbrigðiseftirlit í öðru umdæmi hefði kannski komist að annarri niðurstöðu en það á Vesturlandi. Frumskógur regluverksins er sérstakt rannsóknarefni.

Yfir öllu tróna ráðherrar. Viðreisnarkonan Hanna Katrín Friðriksson er atvinnuvegaráðherra. Í Morgunblaðinu í dag (29. mars) er rifjað upp að hún hafi sagt í fjölmiðlum að Lífland, eigandi Kornax, gæti sótt aftur um starfsleyfi, yrði því synjað mætti kæra ákvörðunina og ráðuneytið myndi grípa til nauðsynlegra aðgerða. Síðan hefur ráðherrann þagað um málið opinberlega. Hanna Katrín veitir ekki heldur eigendum Líflands viðtal. Hún yrði líklega talin vanhæf kæmi til kærumáls.

Þorsteinn Narfason, heilbrigðisfulltrúi Vesturlands, undrast afstöðu ráðherra og segir við Morgunblaðið í dag undarlegt ef ráðherrann færi gegn lögum í málinu. Hann segist tilbúinn að ræða málið við ráðuneytið. Finna eigi „bestu mögulegu lausn, líka fyrir fyrirtækið ef það hefur áhuga á að starfa áfram.“ Fyrirtækið hefur beðið í fimm ár eftir þessari lausn, megi marka fréttir.

Allt ber þetta vott um að regluvaldi sé beitt enn einu sinni án þess að allar stjórnsýslureglur um rannsóknarskyldu, meðalhóf og annað séu virtar. Upphafleg ákvörðun Faxaflóahafna er umdeilanleg. Hitt er stórundarlegt að í fimm ár hafi Kornax glímt við að fá starfsleyfi á Grundartanga án þess að opinberir aðilar regluverksins hafi stillt saman strengi sína og ráðherrann bendi svo bara á kæruleiðir.