Keppnin um bóluefnið
Spurningin snýst ekki um hvað Lyfjastofnun Evrópu segir heldur hve frumkvæðið er mikið af hálfu íslenskra yfirvalda.
„Þetta lítur alveg ótrúlega vel út miðað við aðrar þjóðir í kringum okkur. Það hlýtur að segja manni að okkur gangi vel að taka þátt í þessum sóttvörnum,“ segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands á mbl.is í dag (4. janúar) þegar hann ræðir þróun kórónuveirufaraldursins hér á landi. Vel hafi tekist að ná böndum á faraldurinn, sem virtist á uppleið um miðjan desembermánuð.
Almenn skynsemi segir að við þessar aðstæður sé einmitt æskilegt að geta gert stórátak í bólusetningu og koma þannig í veg fyrir að ný bylgja veirunnar berist yfir landið. Að þessu leyti er aðstaða okkar allt önnur en nágrannaþjóðanna austan hafs og vestan sem sjá ekki fyrir endann á núverandi bylgju og nýta bóluefnið ekki síst til að hindra að heilbrigðiskerfi sín brotni undan ofurþunga veirunnar.
Kosti það þjóðarbúið um milljarð króna á dag að viðhalda núverandi ástandi er ekki óeðlilegt að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gangi fram fyrir skjöldu í Morgunblaðinu í dag og telji það koma til greina að stjórnvöld hér veiti bráðaleyfi fyrir notkun nýrra bóluefna vegna kórónuveirunnar. Það hljóti þó að ráðast af því að hægt sé að gera það hraðar en Lyfjastofnun Evrópu tekst.
Að binda trúss sitt við Lyfjastofnun Evrópu vegna notkunar á bóluefni hér er ekki lög- eða samningsbundin nauðsyn. Að velja annan kost en þann kallar ekki á að innlendir aðilar leggist í alla rannsóknarvinnuna sem gerð hefur verið í Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Indlandi og víðar.
Ríkisstjórn Ísraels segir að 11,5% landsmanna hafi verið bólusettir í fyrri umferð með efni frá Pfizer/BioNTech. Á síðu Oxford-háskóla, Our World in Data, segir að í dag hafi 11,4 milljónir manna fengið bólusetningu, flestir í Kína (4,5 m.) og næstflestir í Bandaríkjunum (4,2 m.)
Spurningin snýst ekki um hvað Lyfjastofnun Evrópu segir heldur hve frumkvæðið er mikið af hálfu íslenskra yfirvalda. Tilraun Brusselmanna til að beita miðstýringu í viðbrögðum við veirunni mistókst. Tilraunin breyttist í stjórnsýslulegt og pólitískt áfall fyrir framkvæmdastjórn ESB þótt hún reyni að bera sig vel og beita tiltækum ráðum til að gera sig gildandi á sviði sem fellur ekki undir ESB, heilsugæslu manna, og því síður undir EES-samninginn.
Önnur hlið þessa máls er krafan um að ríku, þróuðu þjóðirnar slái af kaupum sínum á bóluefni í þágu fátæku, vanþróuðu þjóðanna. Frjáls félagasamtök sem myndað hafa alþjóðasamtökin People’s Vaccine Alliance segja að ríku þjóðirnar hafi keypt svo mikið magn af bóluefni að dugi til að bólusetja þrefaldan íbúafjölda landanna fyrir lok árs 2021 fáist magnið afhent. Danir, 5,8 milljónir, höfðu um miðjan desember samið um það fyrir milligöngu ESB að fá bóluefni fyrir 16 m. manna. ESB hafði tryggt sér um það bil 2 milljarða skammta fyrir um 512 milljónir manna. Kanadastjórn hefur tryggt sér bóluefni sem dugar fyrir fimm sinnum fleiri en búa í landinu.
Þetta er harður heimur þar sem hagsmuna þjóða er ekki gætt nema með forsjálni og frumkvæði í samvinnu opinberra og einkaaðila.