8.6.2018 9:28

Katrín semur um þinglok

Framganga Katrínar og málflutningur er meginstyrkur flokks hennar. Sé vegið að henni innan flokksins vegna forsætis hennar í ríkisstjórninni er ekki aðeins grafið undan trausti á stjórninni heldur undan VG-flokknum sjálfum.

Samkomulag hefur tekist um lok þingstarfa. Það ræðst af afstöðu forsætisráðherra hverju sinni hvernig staðið er að þinglokum. Hvort látið sé reyna á afl meirihlutans til að knýja fram lyktir mála eða leitað samkomulags. Nú eru fyrstu þinglok undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG. Það er í anda alls stjórnarsamstarfsins að leitað var samkomulags á þingi.

Rætt var við Katrínu á Morgunvakt rásar 1 í morgun þar sem þrír fréttamenn lögðu fyrir hana spurningar í tilefni þinglokanna og svaraði hún þeim öllum á málefnalegan hátt með skýrum rökum. Framganga Katrínar og málflutningur er meginstyrkur flokks hennar. Sé vegið að henni innan flokksins vegna forsætis hennar í ríkisstjórninni er ekki aðeins grafið undan trausti á stjórninni heldur undan VG-flokknum sjálfum.

Katrín sagði að tillöguna um breytingar á veiðigjöldum ætti að ræða í stóru samhengi við endurskoðun laga um gjöldin sem ljúka ætti um áramótin. Vonandi tekst að ná almennri sátt um þetta mál og þar með skapa frið um stjórn fiskveiða. Ekki er lengur deilt hvort innheimt skuli veiðigjöld. Eftir að menn eru komnir yfir þann þröskuld ætti að verða unnt að greiða úr öðrum ágreiningsefnum.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Tónninn í spurningum fréttamannanna var á þann veg að Katrín og flokkur hennar ætti undir högg að sækja í stjórnarsamstarfinu, um of væri þrengt að honum og ekki endilega af velvilja af samstarfsflokkunum. Katrín blés á allt slíkt tal og barmaði sér alls ekki. Hún setti stöðu og fylgi flokksins í eðlilegt samhengi og benti á að breytingar á stjórnmálavettvangi væru svo miklar að tal um fjórflokkinn væri út í hött. Allir flokkar störfuðu í nýju umhverfi. Sínum flokki hefði til dæmis aldrei tekist að ná góðri fótfestu á sveitarstjórnarstiginu þótt honum vegnaði vel þegar kosið væri til þings og færi jafnvel stundum með himinskautum í könnunum.

Þegar hlustað var á spurningarnar og svör Katrínar vaknaði sú hugmynd hvort fjölmiðlamenn væru ekki of fastir í gömlum tíma í mati sínu á stjórnmálastöðunni.

Kenningin um að litlir flokkar fari illa út úr samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á til dæmis rætur í úrslitum þingkosninga árið 1971 þegar flokkamynstrið var annað og 12 ára stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks lauk. Í kenningunni felst einfaldlega ósannfærandi afsökun fyrir litlu fylgi í kosningum. Hitt er svo í öllu tilliti langsótt að fara nú tæplega hálfa öld aftur í tímann til að leita skýringa á stjórnmálastraumum samtímans.

Undir lok samtalsins var Katrín spurð hvort hún sem formaður VG og andstæðingur NATO ætlaði að sækja leiðtogafund NATO sem haldinn verður í júlí 2018. Hún svaraði hiklaust að það mundi hún gera og nota hann til að lýsa skoðun sinni og stefnu Íslands. Henni væri ekkert að vanbúnaði í því efni og í samtali þeirra Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO, sem hún þekkti frá fyrri tíð, hefði komið fram að hann hlakkaði til að hitta hana á leiðtogafundinum og heyra tillögur hennar um afvopnunarmál. (Þess má geta að á yngri árum sem baráttumaður í ungliðahreyfingu norska Verkamannaflokksins skipaði Stoltenberg sér í raðir NATO-andstæðinga.)