15.3.2023 9:25

Katrín í Kyív

Allar hörmungarnar sem Úkraínumenn mega þola stafa af tilefnalausri innrás Rússa og tilraun Vladimirs Pútins til að afmá Úkraínu af landakortinu og uppræta menningu úkraínsku þjóðarinnar með aðferðum sem rússneskir alræðisherrar hafa áður beitt.

Af fréttum af ferð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra til Úkraínu má ráða að það hafi haft djúp tilfinningaleg áhrif á þær að heimsækja Kyív og nágrenni og hitta Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta.

Fréttir bera með sér að umræðuefnið hafi ekki beint snúist um tilefni og gang Úkraínustríðsins sjálfs. Tilgangur ferðarinnar var að upplýsa Úkraínuforseta um leiðtogafund Evrópuráðsins sem verður hér í maí og telja hann á að sækja fundinn í eigin persónu. Svarið við þeirri ósk var að sjálfsögðu að allar ákvarðanir um slíkt yrðu að bíða síns tíma en auðvitað mundi forsetinn ávarpa fundinn um fjarfundabúnað.

Jafnframt skýrðu íslensku ráðherrarnir frá stuðningi sínum við baráttu Úkraínustjórnar við Rússa og hétu að leggja það af mörkum sem íslensk stjórnvöld gætu, var þar sérstaklega vikið að orkumálum og heilbrigðismálum. Ekki er langt síðan heilbrigðisráðherra kom á óvart þegar hann sagði að hér yrði hugsanlega hugað að særðum úkraínskum hermönnum.

14_03_2023_02_00492Katrin Jakobsdóttir og Volodymyr Zelenskíj heilsast á fundi í Kyív 14. mars 2023 (mynd: forsætisráðuneytið).

Framgangur alls þessa ræðst af því sem gerist á vígvellinum í Úkraínu. Á hinn bóginn nefndi Zelenskíj að hann hefði áhuga á að leiðtogar Evrópuráðsríkjanna ræddu og tækju afstöðu til 10 punkta friðaráætlunar sinnar. Hann kynnti áætlunina fyrst á fundi G20 ríkjanna sem haldinn var á Balí í Indónesíu í nóvember 2022.

Í áætluninni er lögð áhersla á að gætt sé fyllsta öryggis við kjarnorkuver í Úkraínu. Þá er vikið að fæðuöryggi og orkuöryggi; frelsun fanga og þeirra sem fluttir hafa verið nauðugir úr landi, athygli beinist sérstaklega að tugum þúsunda barna; að landamærahelgi og landsyfirráðaréttur Úkraínu sé viðurkenndur; Rússar kalli herlið sitt til baka, hætti átökum og hernámi sínu; sérstakur alþjóðadómstóll rannsaki alla glæpi Rússa, þeir verði látnir sæta ábyrgð fyrir brot á mannréttindum og alþjóðalögum og dæmdir til að greiða fórnarlömbum skaðabætur; tekist verði á umhverfisspjöll vegna stríðsins og áhersla lögð á umhverfisvernd; gripið verði til ráðstafana gegn frekari stigmögnun og komið á kerfi sem stuðli að stöðugu samtali og samvinnu; stríðslok verði staðfest með friðarsamningi, skrifað verði undir alhliða samkomulag sem tryggi frið og stöðugleika á svæðinu.

Katrín Jakobsdóttir sagði að Úkraínu mundi bera hæst á leiðtogafundinum hér á landi og þær hefðu tekið vel í ósk Zelenskíjs um að friðaráætlun hans yrði rædd. Það hefði einnig verið rætt við Denys Shymhal forsætisráðherra „þar sem við fórum rækilega yfir það sem lýtur að ábyrgðarskyldunni í friðaráætluninni, umhverfismálum og uppbyggingu réttarríkisins í kjölfar átakanna,“ segir Katrín á forsíðu Morgunblaðsins í dag (15. mars).

Allar hörmungarnar sem Úkraínumenn mega þola stafa af tilefnalausri innrás Rússa og tilraun Vladimirs Pútins til að afmá Úkraínu af landakortinu og uppræta menningu úkraínsku þjóðarinnar með aðferðum sem rússneskir alræðisherrar hafa áður beitt.

Sífellt skal minnt á þessa staðreynd og brýna til andstöðu við ofríkisöflin.