15.3.2022 11:24

Katrín fundar með Boris

Bretar áttu frumkvæði að samstarfinu til að efla varnarmátt þátttökuríkjanna með sameiginlegum heræfingum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og átta aðrir ríkisoddvitar héldu til London mánudaginn 14. mars til fundar við Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, undir merkjum JEF-samstarfsins um varnar- og öryggismál.

JEF (Joint Expeditionary Force), sameinaða viðbragðsliðið, er fjölþjóðlegt varnarsamstarf norrænu ríkjanna fimm, Eystrasaltsríkjanna þriggja, Hollands og Bretlands. Bretar áttu frumkvæði að samstarfinu til að efla varnarmátt þátttökuríkjanna með sameiginlegum heræfingum, til að vinna gegn hvers kyns hættuástandi en taka höndum saman á hættustund.

Á fundunum í London ber hermál og stríðið í Úkraínu hæst. Í gær hófst NATO-heræfingin Cold Response í og við Norður-Noreg en Bretar senda þangað flugmóðurskipið Prince of Wales til forystu á hafi úti. Orkumál ber örugglega einnig á góma.

COP26-Summit-Day-Two-aEjbzTPisrsxKatrín Jakobsdóttir og Boris Johnson heilsast á loftslagsráðstefnunni í Skotlandi haustið 2021.

Í dag (15. mars) birtir Boris Johnson grein í The Telegraph og gagnrýnir harðlega hve linlega vestræn ríki brugðust við innlimun Pútins á Krímskaga 2014. Töldu menn að öll samskipti við Pútin gætu orðið eðlileg að nýju. Evrópuþjóðir hefðu síðan keypt meira gas af Rússum en nokkru sinni fyrr. Pútin áleit því að það yrði erfitt að refsa honum réðist hann inn í Úkraínu að nýju. Evrópuþjóðir væru háðar sér.

Boris Johnson segir að auður Rússa af jarðefnaeldsneyti sé ekki aðeins styrkur Pútins heldur einnig veikleiki. Hann eigi varla annað til sölu. Sé unnt að binda enda á þörf annarra fyrir olíu og gas frá Rússlandi verði Pútin sviptur reiðufé, strategía hans verði að engu og hann settur á réttan bás.

Í greininni boðar breski forsætisráðherrann hvernig staðið skuli að því að móta og framkvæma orkustefnu til að Pútin neyðist til að hætta árásarstríðinu og til að virða alþjóðalög. Fyrir vestrænar þjóðir sé þetta sársaukafull en óhjákvæmileg aðgerð.

Fyrsta skrefið sé að ná aftur stjórn á eigin orkugjafa. Bretar verði að tryggja betur en nú að þeir séu sjálfum sér nógir um orku en ekki háðir duttlungum eineltishrotta á borð við Pútin.

Athyglinni verði að beina að hvers kyns grænni orku. Með endurnýjanlegum orkugjöfum sé fljótlegast og ódýrast að öðlast meira orkusjálfstæði. Ekki sé hætta á að vélabrögð Pútins nái til þeirra. Hann kunni að ráða yfir olíu- og gasdælum en hann ráði ekki hvernig vindurinn blæs á Norðursjó.

Boris Johnson vill fjölga vindorkuverum á hafi úti, hann vill að sólarorka sé virkjuð, hugað sé að virkjun sjávarfalla, vatnsafls og jarðhita. Þá verði að tryggja grunnorku sem hvorki sé háð veðri né vindum og það sé best gert með kjarnorku. Tímabært sé að hverfa frá sögulegu mistökunum frá árinu 1997 þegar Verkamannaflokkurinn ákvað að hverfa frá rekstri kjarnorkuvera í Bretlandi. Með öllu þessu séu tvær flugur slegnar í einu höggi: Pútin og útblástur frá jarðefnaeldsneyti.

Þarna fer ekkert á milli mála hjá Boris Johnson frekar en fyrri daginn. Vonandi hefur boðskap hans verið vel tekið af Katrínu Jakobsdóttur og öðrum á JEF-fundinum.