6.5.2023 9:34

Karl III. krýndur

Engri annarri þjóð en Bretum er betur lagið að standa að atburðum sem tengjast þjóðhöfðingja sínum og samveldisþjóðanna með sambærilegum glæsibrag.

Þetta er skrifað í aðdraganda þess að Karl III. Bretakonungur og Camilla drottning hans verða krýnd. Í sjónvarpi er bein útsending BBC sem hefur kallað hátíðarfréttamann sinn og kynni Walesmanninn Huw Edwards á vettvang. Hann les að jafnaði tíu-fréttir BBC News en er einnig falið að segja frá opinberum athöfnum í Bretlandi og stórviðburðum þar og á alþjóðavettvangi.

Fyrir viðburðina er gjarnan rætt við Edwards í öðrum fjölmiðlum þar sem hann lýsir því hve vel hann býr sig undir það sem honum ber að lýsa og hvernig hann aflar sér þekkingar til að miðla verði „dauð augnablik“ í atburðarásinni.

Þegar um er ræða atburði sem tengjast bresku konungsfjölskyldunni er eins gott að vera vel að sér um söguna langt aftur í aldir. Nauðsynlegt er að kunna skýringu á því hvers vegna steinn er fluttur frá Skotlandi og settur undir hásætið þar sem konungurinn er smurður af erkibiskupnum af Kantaraborg án þess að nokkrir aðrir sjái.

Engri annarri þjóð en Bretum er betur lagið að standa að atburðum sem tengjast þjóðhöfðingja sínum og samveldisþjóðanna með sambærilegum glæsibrag.

IMG_7234Konungshjónin á leið frá höll til kirkju – mynd tekin af sjónvarpsskermi í Fljótshlíðinni.

Í því felst aðdáunarverð íhaldssemi að halda í allar hefðirnar sem tengjast krýningunni. Umfangið er þó minna en þegar Elísabet 2. var krýnd árið 1953. Þá gat almenningur um heim allan ekki fylgst með athöfninni í sjónvarpi eins og nú er unnt að gera. Hefur verið tekið mið af því við skipulagningu athafnarinnar. Glæsileikinn er mikill og litadýrðin.

Það rignir utan dyra í London þar sem mannfjöldi hefur safnast saman til að fagna þeim sem fara undir fánana sem blakta á leiðinni frá Buckinghamhöll til Westminister Abbey þar sem trúarlega krýningarathöfnin fer fram.

Í samtali við Huw Edwards fyrr í morgun sagði erkibiskupinn af Kantaraborg að inntak kirkjulegu athafnarinnar væri „þjónusta“. Guðsþjónusta segjum við á íslensku. Við krýninguna er ekki aðeins lögð áhersla á þjónustuna við Guð heldur einnig þjónustu þjóðhöfðingjans við þjóðina. Karl III. hefur hvað eftir annað sagt að hann vilji þjóna en ekki að sér sé þjónað.

Konungsfjölskyldan mælir vinsældir sínar meðal annars af því hve margir almennir borgarar safnast saman fyrir framan Buckinghamhöll þegar fjölskyldan gengur þar fram á svalirnar til hyllingar. Dæmi um það sést síðar í dag.

Það sem nú ber fyrir augu á sjónvarpsskjánum er litríkt og mikið sjónarspil.

´