Kárhóll í 99 ár fyrir Kínverja
Engin spurning er um að Kínastjórn leigir þetta land hér undir stöð í hernaðarlegum tilgangi. Gildi hennar fyrir Kínaher vex samhliða sókn þeirra á norðurslóðir og út í geiminn.
Í dagbókum Ólafs Ragnars Grímssonar segir frá því að vorið 2010, þegar hann vann að því að koma sér að nýju í mjúkinn hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hafi sameiginlegur áhugi hans og Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra á að efla samskiptin við Kína orðið til þess að þeir hófu trúnaðarsamtöl sín um alþjóðamál og málefni ríkisstjórnarinnar að nýju.
Norðurslóðasetrið svonefnda sem Kínverjar eiga aðild að og er til húsa á Kárhóli í Reykjadal í Þingeyjarsveit, skammt frá þéttbýlinu Laugum. Landið er í eigu Aurora Observatory og er stöðin þar arfleifð Kínavináttu þeirra félaga.
Í Morgunblaðinu í dag (23. október) er skýrt frá því að Kínverjar hafi ákveðið að láta Aurora Observatory, sjálfseignarstofnun í eigu atvinnuþróunarfélaga á Norðurlandi eystra, sem var í vanskilum við Byggðastofnun, í té 180 m. kr. til að gera upp við stofnunina. Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Aurora Observatory, er starfsmaður Byggðastofnunar.
Í frétt blaðsins segir að 2018 hafi Aurora Observatory gert 99 ára leigusamning við Kínverja sem greiddu 500 m. kr. fyrir hann og nú hækki leigan um 180 m. kr. Hér var því spáð fyrir nokkrum vikum að Kínverjar myndu herða fjárhagslegu tökin á Aurora Observatory við lausn þessa máls gripu stjórnvöld ekki fram fyrir hendur sjálfseignarstofnunarinnar. Því miður var það ekki gert.
Í lok annarrar heimsstyrjaldarinnar óskaði Bandaríkjastjórn eftir leigu á íslensku landi undir herstöð eða herstöðvar til 99 ára. Um málið urðu harðar pólitískar deilur sem lyktaði með því að óskinni var hafnað og hafa Íslendingar ekki leigt neinu ríki land til 99 ára fyrr en það var gert með samningi Aurora Observatory!
Engin spurning er um að Kínastjórn leigir þetta land hér undir stöð í hernaðarlegum tilgangi. Gildi hennar fyrir Kínaher vex samhliða sókn þeirra á norðurslóðir og út í geiminn.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði á alþingi 30. júní 2023 að tilurð stöðvarinnar mætti rekja til rammasamnings um samstarf á norðurslóðum sem undirritaður var af utanríkisráðherrum Íslands [Össuri Skarphéðinssyni] og Kína árið 2012. Grundvöllur fyrir rannsóknamiðstöðinni væri rammasamningur milli Heimskautastofnunar Kína og Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands um rannsóknamiðstöðina China Iceland Arctic Observatory frá 2013.
Í Morgunblaðinu var laugardaginn 19. október greint frá bréfi sem bandarísk þingnefnd sendi til utanríkis- og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna þar sem lýst var áhyggjum af rannsóknarstarfsemi Kínverja á Kárhóli.
Mánudaginn 21. október ræddu embættismenn Bandaríkjanna og Íslands málið að sögn blaðsins sem birtir í dag viðtal við utanríkisráðherra sem segir málefni Kárhóls hafa verið til skoðunar og tekin hafi verið „ýmis skref“ til að „auka aðkomu íslenskra aðila að starfseminni“. Þá eigi stjórnvöld aðild að „þéttu samstarfi“ og „skiptist á upplýsingum við helstu samstarfs- og bandalagsríki á þessu sviði“. Allt er þetta í nokkrum véfréttarstíl. Augljóst er hins vegar að loksins virðast íslensk stjórnvöld átta sig á að á Kárhóli sé ekki allt sem sýnist. Betra er seint en aldrei.