27.10.2018 10:29

Kara Connect ögrar kerfinu

Það vekur undrun að lesa þetta á árinu 2018 miðað við það sem hægt var að gera fyrir 20 árum innan þeirra laga og reglna sem þá giltu.

Þegar ég kynntist Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur hafði hún áhuga á að starfa að stjórnmálum. Hún varð ein af borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna árið 2002 og lagði gott til allra mála. Síðar fékk hún ekki það brautargengi í stjórnmálum sem hún vildi og sagði sig frá þeim. Í stjórnmálastarfi sínu hafði hún ávallt brennandi áhuga á menntamálum en lausnir hennar voru oft aðrar en féllu að kerfinu, opinbera sjónarmiðinu sem ræður á hverjum tíma.

Nú berast þær fréttir að með nýsköpun, nýrri aðferð á netinu til að ná til þeirra sem hafa sérstöðu hvort heldur vegna vanmáttar eða ofurgetu, hafi Þorbjörg Helga þróað tækni til að leggja rækt við einstaklingsbundin vandkvæði eða hæfileika. Í Fréttablaðinu í dag (27. október) birtist viðtal við Þorbjörgu Helgu. Þar segir að hvaða sérfræðingur sem er geti opnað veftólið  hennar nýja Kara Connect til þjónustu hvenær sem er og hitt skjólstæðinga sem búa á Dalvík eða í Neskaupstað en setið sjálfur í Reykjavík. Þetta sé í raun einfaldara en Skype og miklu öruggara sem skiptir að sjálfsögðu miklu á tímum harðra krafna til persónuverndar.

09abc2542debe3eb6ca06cd0a533c3c4Þessi mynd af Þorbjörgu Helgu birtist í Viðsklptablaðinu í september 2018 þegar sagt var frá því að Kara Connect hefði verið valið sproti ársins í Nordic Startup Awards á Íslandi og hún sjálf stofnandi ársins.

Þorbjörg Helga er spurð hvort ekki sé rakið að þessi tækni sé nýtt á víðtækan hátt. Hún segist hins vegar reka sig á að ríkið ætli „að gera allt sjálft“ í stað þess að skoða lausnir sem séu í boði og velja þær sem virka. Það standi nýtingu nýrrar tækni fyrir þrifum að stuðst sé við úrelt lög og reglur:

„Það vantar kannski sérkennara í stærðfræði fyrir strák á Dalvík eða næringarfræðing fyrir stelpu á Flateyri, sem Kara gæti auðveldlega séð þeim fyrir en vegna þess að ríkið og sveitarfélögin og stofnanirnar eru tregar, eða mega hreinlega ekki taka inn nýja tækni vegna úreltra laga, þá er það ekki inn í myndinni,“ segir Þorbjörg Helga.

Það vekur undrun að lesa þetta á árinu 2018 miðað við það sem hægt var að gera fyrir 20 árum innan þeirra laga og reglna sem þá giltu. Vissulega þurfti þá oft að taka ákvörðun og fylgja henni alla leið til að tryggja að hún kæmist örugglega í framkvæmd. Að lesa það nú að ekki sé unnt að nota tækni sem stenst öryggiskröfur á tímum tölvuþrjóta og strangrar persónuverndar af því að stuðst sé við Skype sýnir best hve fastheldnin er mikil innan kerfisins. Auðvelt er að álykta að það séu ekki lögin og reglurnar sem hindra að háþróuð og örugg tækni sé innleidd heldur sé vísan til þeirra beitt af þeim sem vilja ekki breytingar heldur hjakka í sama farinu. Auðvitað eiga þeir ekki að ráða heldur þeir sem eiga rétt á þjónustunni.