Kafbátaógn frá Rússum eykst
„Að kenna umsvif Rússa [á N-Atlantshafi] við útþenslu er vægt
til orða tekið. Ég held við getum ekki gengið að Rússum vísum. Við verðum að
taka ógnina frá þeim alvarlega...“ segir breskur flugforingi.
Michael M. Gilday, aðgerðarstjóri bandaríska flotans, var hér á landi í vikunni og heimsótti meðal annars Landhelgisgæslu Íslands þriðjudaginn 14. júní, ræddi við Georg Lárusson forstjóra um samstarf á sviði leitar og björgunar og fór í æfingar og eftirlitsflug með þyrlusveit gæslunnar.
Daginn áður en bandaríski flotaforinginn heimsótti landhelgisgæsluna hófst Dynamic Mongoose 2022, kafbátaleitaræfing NATO, sem fer fram dagana 13.-23. júní nk. Að mestu er æft á hafinu við Noreg en að hluta til innan þess loftrýmissvæðis sem Ísland annast.
Fyrir æfinguna komu sex herskip úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins hingað til lands. Þau æfðu meðal annars á Eyjafirði með þyrlusveit gæslunnar áður en þau komu til Reykjavíkur 9. júní áður en þau héldu 13. júní á æfingasvæðið við Noreg. Þrír kafbátar, ellefu herskip og sextán eftirlitsflugvélar taka þátt í æfingunni að þessu sinni.
Vegna æfingarinnar var blaðamanni The Telegraph í Bretlandi boðið að fara í eftirlitsleiðangur með flugvél breska flughersins P-8 Poseidon Maritime Patrol Aircraft (MPA) frá Lossiemouth í Skotlandi. Bretar eiga níu vélar af þessari gerð eftirlitsflugvéla, Boeing-þotna. Segir blaðamaðurinn að hver þeirra kosti 120 milljónir punda, um 19,5 milljarða ísl. kr.
Flugforingjarnir um borð í vélinni segja að til þess að unnt sé að halda uppi nægu eftirliti á svæði vélanna sem nær til GIUK-hliðsins, frá Grænlandi um Ísland til Skotlands, þurfi breski flugherinn að eignast þrjár vélar til viðbótar. Ráða yfir 12 vélum eins og Ástralar og Indverjar, Bandaríkjamenn eigi hins vegar 128 vélar.
Petropavlovsk-Kamstjatskíj díselkafbátur úr flota Rússa.
Að jafnaði eru P-8 vélar hvern dag á Keflavíkurflugvelli þaðan sem þær stunda eftirlit og njóta þjónustu af hálfu landhelgisgæslunnar sem fer með daglega stjórn á NATO-öryggissvæðinu á vellinum.
Bresku foringjarnir segja blaðamanni The Telegraph að nú sé kafbátaumferð Rússa meiri í Norður-Atlantshafi heldur í kalda stríðinu og á undanförnum tíu árum hafi fjöldi báta sem „finnast“ tvöfaldast. Það verði að fjölga bresku P-8-vélunum í 12 til að viðbrögð Breta séu „trúverðug“ gegn „sókndjörfum og útþenslusinnuðum“ Rússum.
Úr flugvélunum er kastað sónarbaujum, 129 í hverri vél, hver kostar allt að 5.000 pundum, um 840.000 ísl. kr.. Þær eru notaðar til hlera eftir kafbátum sem stundum nota vélarhljóð frá togurum eða öðrum fiskiskipum til að leynast.
„Að kenna umsvif Rússa við útþenslu er vægt til orða tekið. Ég held við getum ekki gengið að Rússum vísum. Við verðum að taka ógnina frá þeim alvarlega... Framkoma útþenslusinnaðra Rússa er á þann veg að sumir hefðu aldrei búist við henni. Það reynir meira á flota okkar en nokkurn hafði grunað.“
Þessi alvarlegu viðvörunarorð eiga ekki síður erindi til okkar Íslendinga en breskra lesenda The Telegraph. Þarna er lýst veruleika sem blasir við þeim sem sjá hvað gerist í undirdjúpunum við og umhverfis Ísland.
Að loka augunum fyrir þessum veruleika þótt íslensk stjórnvöld eigi ekki tækjakost til að greina hann er glæfralegt. Hér verður eins og í nágrannalöndum að stíga markverð og sýnileg skref til að auka fælingarmátt og öryggi lands og þjóðar við aðstæður sem breytast hratt til neikvæðrar áttar.