20.3.2023 9:24

Kærunefnd særir sósíalista

Ástæðan fyrir að Ögmundur Jónasson gagnrýnir sérþjónustuna sem landflótta Venesúelabúar njóta hér fellur að sósíalískum skoðunum hans.

Marga undrar hve Venesúelabúar eiga greiðan aðgang að íslenska flóttamannakerfinu og að þeir skuli, samkvæmt ákvörðun kærunefndar útlendingamála, eiga hér rétt á fjögurra ára vernd. Íslensk stjórnvöld hafa á þennan hátt markað sér sérstöðu í Evrópu.

Í grein í Morgunblaðinu í dag (20. mars) kynnir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, þá nýstárlegu skoðun að í raun hafi Venesúelabúar þessa sérstöðu hér vegna þess að kærunefnd útlendingamála gangi erinda NATO og Bandaríkjastjórnar sem vilji hlut sósíalískra stjórnvalda sem verstan.

Ögmundur segir að fólk sem NATO-ríki telji skjólstæðinga sína fái hér aðrar viðtökur en einstaklingar sem eigi sér ekki þann bakhjarl. Fólk frá Úkraínu og Venesúela sé „boðið velkomið án þess að aðstæður hvers og eins séu teknar til skoðunar“. Fólk sem komi annars staðar frá, jafnvel frá átaka- og hörmungarsvæðum, fái hins vegar allt aðrar móttökur. Ögmundur lætur þess ógetið að réttarstaða fólks frá Venesúela sé betri í skjóli íslenskra stjórnvalda en Úkraínumanna sem fá hér vernd aðeins til eins árs.

Ástæðan fyrir að Ögmundur Jónasson gagnrýnir sérþjónustuna sem landflótta Venesúelabúar njóta hér fellur að sósíalískum skoðunum hans: Bandaríkjamenn hafi sett Venesúela í efnahagslegt skrúfstykki og hert á því vegna ótta við foringja sósíalista, forsetana Hugo Chavéz og Nicolás Maduro. Þrengingar þjóðarinnar séu Bandaríkjamönnum að kenna og það sé samkvæmt „forskrift frá Pentagon, bandaríska „varnarmálaráðuneytinu“,“ eins og Ögmundur orðar það, að kærunefnd útlendingamála komist að niðurstöðu sinni.

Ögmundur rýnir í greinargerð kærunefndarinnar frá 18. júlí 2022 sem opnaði Venesúelabúum örugga leið til landsins og segir hana samhljóða álitsgerðum bandarísku utanríkisþjónustunnar þar sem hæðst sé að „sæluríkjum sósíalismans“.

MadurSósíalistinn Nicolás Maduro, forseti Venesúela.

Ögmundur hafnar allri gagnrýni sem snýr að Maduro forseta og efasemdum um umboð hans. Staðreyndin sé sú að bandarísk stjórnvöld hafi ofsótt yfirvöld í Venesúela allar götur frá því að Hugo Chavéz var kjörinn forseti í Venesúela árið 1999. Hann hafi reynt að ná olíuauðlindum landsins úr höndum erlendra auðhringa, aðallega bandarískra. Þar með hafi ofsóknir á hendur honum og efnahag Venesúela hafist. Réttmæti þess að benda á afleiðingar efnahagsþvingananna sannist nú þegar NATO-ríki þurfi á olíu frá Venesúela að halda vegna stríðsins í Úkraínu og verðið á henni hækki. Má skilja Ögmund á þann veg að þá hrynji öll röksemdafærslan í forskrift Bandaríkjastjórnar og þar með grundvöllur úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá 18. júlí 2022.

Sé kenning Ögmundar Jónassonar rétt, að kærunefnd útlendingamála hafi í raun verið að þóknast Bandaríkjastjórn með því að opna landið fyrir flóttafólki frá Venesúela, er skiljanlegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar, Samfylkingar og Pírata, standi í þeirri trú að Venesúelabúar komi hingað með fyrstu ferð frá Bandaríkjunum – svo er þó ekki þeir hafa allir viðkomu á flugvelli í Evrópu fyrir komuna hingað, flestir í Madrid og Barcelona. Hér sannast enn og aftur að ekki er öll vitleysan eins.