16.8.2021 11:40

Kabúl er fallin

Það sem gerist nú í Afganistan er sérstaklega dapurlegt vegna þess að á 20 árum hefur mistekist að losa íbúa landsins úr vef sem ofinn eru úr allt öðru en því sem við verður ráðið með erlendu hervaldi.

Föstudaginn 13. ágúst birtist pistill hér á síðunni um sigurgöngu Talibana í Afganistan og þótt henni væri líkt við hraðferð var því ekki spáð að sunnudaginn 15. ágúst hefðu Talibanar náð höfuðborginni Kabúl á sitt vald og forseti landsins hefði flúið með þau orð á vörunum að hann gerði það til að forða blóðbaði í borginni. Nokkru síðar birtu fjölmiðlar mynd af Talibönum í forsetahöllinni eins og sjá má hér:

E82hT3MWEAM8HWKHér hafa Talibanar stillt sér upp til myndatöku sunnudaginn 15, ágúst 2021 í forsetahöllinni í Kabúl.

Verulegar umræður urðu um þennan pistil á Facebook og sýnist sitt hverjum um það sem gerst hefur í Afganistan undanfarnar vikur. Sérstaka athygli vekur hve þeim er heitt í hamsi sem hér á landi sem vilja skella allri skuldinni á því sem nú gerist á Joe Biden Bandaríkjaforseta síðan í janúar 2021. Vissulega er hann æðsti yfirmaður Bandaríkjahers á þessari örlaga- og niðurlægingarstund. Hann tók hins vegar við keflinu frá Donald Trump sem hafði markað brautina.

Gagnrýnendur Bidens í Bandaríkjunum ráðast harkalega á hann fyrir ræðu sem hann flutti laugardaginn 14. ágúst þar sem hann minnti á að Donald Trump hefði boðið Talibönum til viðræðna í Camp David í september 2019 sem hefði styrkt Talibana mest hernaðarlega frá 2001. Trump hefði sett 1. maí 2021 sem brottfarardag bandarísks herafla frá Afganistan. Hann (Biden) hefði staðið frammi fyrir því að fylgja stefnu Trumps eða fjölga aftur í bandaríska herliðinu í Afganistan og skipa því að berjast að nýju í borgarastríði í öðru landi.

The Wall Street Journal bregst hneykslað og reiðilega við þessari afstöðu Bidens í leiðara í dag (16. ágúst). Forsetinn gagnrýni forvera sinn harkalegar en Talíbana. Í orðum hans felist ömurleg afneitun á eigin skyldu. Orðum hans megi líkja við að Winston Churchill hefði kennt Neville Chamberlain, forvera sínum, um að hafa komið sér í þann vanda að sitja uppi með innilokaða breska hermenn á ströndinni við Dunkirk og Bretar hefðu þá þegar háð of mörg stríð á meginlandi Evrópu.

Vissulega má flytja flokkspólitískt uppgjör innan Bandaríkjanna vegna ófaranna í Afganistan hingað til lands á Facebook eða annars staðar. Oftar en einu sinni hefur þeirri skoðun verið lýst hér að undrun veki hve mikill hiti hleypur oft í íslenska áhugamenn um stjórnmál þegar hart er tekist á í Bandaríkjunum. Þær umræður bregða ljósi á margt og skipta okkur máli eins og aðra vegna ítaka og áhrifa Bandaríkjamanna um heim allan.

Hér sagði hins vegar föstudaginn 13. ágúst og skal endurtekið:

„Reynslan frá Afganistan og síðan Írak, þar sem einræðisherra var velt úr sessi með bandarísku hervaldi, sýnir að vonlaust er fyrir vestræn ríki að innleiða eigin stjórnarhætti í löndum múslima. Þar verða þjóðir einfaldlega að fá að ráða örlögum sínum sjálfar.

Stefnan sem á ensku er kennd við state building hefur misheppnast í Afganistan og Írak. Það hefur mistekist að skapa nægilegt öryggi í löndunum til að öflugar stjórnarstofnanir heimamanna stuðli að friðsamlegri pólitítískri, efnahagslegri og samfélagslegri þróun án þess að styðjast við erlent hervald. Sú skipan hlýtur að taka enda eins og nú í Afganistan.“

Það sem gerist nú í Afganistan er sérstaklega dapurlegt vegna þess að á 20 árum hefur mistekist að losa íbúa landsins úr vef sem ofinn eru úr allt öðru en því sem við verður ráðið með erlendu hervaldi. Leiðtogar Talibana þekkja þennan vef og nýta sér hann af kænsku.